fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

„Hvað á ég að kalla þetta annað en aðskilnaðarstefnu?“

Jón Þór Stefánsson
Sunnudaginn 1. nóvember 2020 15:20

Sólveig Anna Jónsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar skrifaði langa færslu sem birtist á Facebook í dag. Þar fjallar hún um stéttaskiptingu á Íslandi og leggur sérstaka áherslu á innflytjendur og/eða þá sem er mismunað vegna uppruna síns.

Ásamt færslu sinni birti Sólveig tvö skjáskot, sem bæði voru af frétt á Vísi.is. Annars vegar mynd af ferðamálaráðherra, fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra með fyrirsögninni: „Milljón á mánuði lágmark en 1,3 milljónir ef maki kemur með“. Og hins vegar mynd af fjölskyldunni sem mikið hefur verið í fjölmiðlum undanfarið, hjónunum Bassirou og Mahe og dætrum þeirra Mörtu og Maríu, með fyrirsögninni: „Hefur greitt skatta og gjöld um árabil en hefur ekki rétt á atvinnuleysisbótum“.

Sólveig segir að hver sá sem reyni að svara fyrir það af hverju fjölskyldan sé send á brott muni hljóma eins og fífl. Hún heldur því fram að fjölskyldumeðlimirnir séu fórnarlömb kapítalismans og að þau hafi ekkert frelsi. Að í augum margra Íslendinga séu þau raun ekkert annað en ódýrt vinnuafl.

Hún segir að stjórnvöld séu vissulega að vinna að lausn, en lausn sem sé á vandamáli sem ekki er til staðar. Í stað þess að leysa raunveruleg vandamál segir Sólveig stjórnvöld leita til Íslandsstofu og bjóði auðugum útlendingum hingað til lands.

Að mati Sólveigar hefur íslensk stéttaskipting búið til aðskilnaðarstefnu. Og spyr sig hvernig viðbrögðin hefðu verið hefði auðugt fólk látið lífið í brunanum í Bræðraborgarstíg í sumar.

Að lokum segir Sólveig dæmisögu frá landi sem er langt í burtu. Landið sem hún lýsir minnir óneitanlega á Ísland. Hún segir að þarna fari börn á leikskólann og leiki saman, en einn daginn komi og taki ákveðin börn í burtu, skipti þeim út fyrir börn ríka fólksins.

Færsla Sólveigar er eftirfarandi:

„Arðrán og kúgun á hinum allslausu annarsvegar, allsnægtir og frelsi hinna auðugu hinsvegar.

Á Íslandi býr fjölskylda, hjónin Bassirou og Mahe og tvær litlar stúlkur, Marta og María. Þau hafa átt heima á Íslandi í tæp 7 ár. Nú stendur til að reka þau burt héðan. Enginn getur svarað því af hverju án þess að hljóma eins og fífl. En það skiptir engu máli. Vegna þess að þetta er verkafólk, eignalaust fólk. Það á vissulega vinnuaflið sitt til að selja og það hafa eigendur atvinnutækjanna keypt. En eins og öllum hlýtur að vera orðið löngu ljóst, enda fátt annað augljósara á þeim tímum sem við lifum, er hrátt vinnuafl aðeins virði umframvirðis kapítalistanna. Og í atvinnuleysinu er hægt að vera verr sett vinnuafl en þau sem þurfa að lifa á mannfjandsamlegum atvinnuleysisbótunum; þú getur verið svo lítils virði að það er ekki einu sinni þess virði að afhenda þér bætur til að halda þér á lífi svo að hægt að sé að nýta þig til vinnu þegar að kreppan er gengin yfir. Þú ert svo lítils virði að ekki einu sinni einn af stóru sigrum verkalýðsbaráttu 20. aldarinnar, opinberar atvinnuleysistryggingar, sérstaklega uppfundnar til að milda brútalisma kapítalismans gagnvart vinnandi fólki, er þinn. Það fær Bassirou, í bland við ofbeldi brottvísunarinnar, nú að reyna. Hann hefur greitt skatta, gjöld, greitt í lífeyrissjóð þann sem er notaður til að knýja áfram íslenskan kapítalisma í gegnum uppsveiflur og áföll, en á þó engin réttindi til að geta tryggt afkomu fjölskyldu sinnar þegar stórkostleg efnahagsleg áföll dynja á, áföll sem hann ber enga ábyrgð á, áföll tilkomin vegna sóttvarnaraðgerða yfirvalda veraldarinnar. Bassirou er arðrændastur af öllum arðrændum á Íslandi. Hann er viðfang og fórnarlamb kerfis sem sum láta eins og sé lögmál en er auðvitað skapað af mannfólki. Hann, Mahe, Marta og María eru svo öreigar alþjóðavæðingar kapítalsins, frelsi þeirra er nákvæmlega ekki neitt. Hann vinnur þegar þörf er á vinnuaflinu hans og er kastað í ruslið þegar að það hentar valdastéttinni.

Á sama tíma og þessir atburðir eiga sér stað í lífi Bassirou og Mahe eru stjórnvöld upptekin við að finna lausnir. En ekki á vanda fjölskyldunnar sem hefur lifað og starfað og greitt skatta og borgað í fjárfestingar-sjóð íslensks auðvalds, lífeyrissjóð verkafólks, Gildi. Þau eru ekki heldur að finna lausnir á vanda þess atvinnulausa fólks sem þarf að leita á náðir hjálpastofnana til að fá mat og nauðsynjar. Þau eru ekki að undirbúa stórkostlega atvinnuskapandi innviðauppbyggingu þar sem hið opinbera kaupir vinnuafl af atvinnulausu fólki á sanngjörnu verði og vinnuaflið er notað til að gera samfélagið okkar betra; með fjölgun starfa í umönnun á mannfólki, með byggingum á leikskólum sem svara þörfum starfsfólks og barna, með því að ráðast í uppbyggingu á félagslegu húsnæði fyrir allt verka og láglaunafólkið sem nú greiðir allt sem það fær í leigu á hinum ofur-einkavædda húsnæðismarkaði og svo mætti lengi telja.

Nei, það sem þau hafa sett tíma í er að vinna að lausn á vandamáli sem ekki er til staðar. Þau hafa unnið að „markaðsátaki“ sem Íslandsstofa mun sjá um. Ég nota hér tækifærið og rifja upp að síðasta markaðsátak sem Íslandsstofa vann að var hið yfirgengilega fáránlega og heimskulega Öskur-verkefni, þar sem stjórnvöld klipptu á jarðtengingu sína og settu hundruðir milljóna í að lokka ferðafólk til landsins með því að láta sem sigur hins íslenska ofur-vilja gæti gert Ísland ónæmt fyrir heimsfaraldri kórónu-veirunnar. Enginn hefur beðist afsökunar á þessu fordæmalausa rugli og fjáraustri tilgangsleysisins. Íslandsstofa, en það hlýtur að vera áhugavert að vinna þar við að framkvæma alla þá síð-kapítalísku hitasóttar-óra sem meðlimir valda og eignastéttar landsins láta sér detta í hug, á að fara í næsta lokkunar-verkefni; nú á að bjóða tekjuháum einstaklingum svokölluðum sem búa utan ferðafrelsis Evrópska efnahagssvæðisins að stunda sína fínu fjarvinnu á Íslandi í hálft ár, án þess að þurfa neitt nema fínheitin og auðvitað fjármagnið. Enginn má koma að vinna og labba svo um helgar á íslenska heiði til að arga nema þau sem hafa allavega milljón á mánuði í laun. Þessu markaðsátaki munu ekki fylgja gul hátalara-kerfi eins og í sumar, heldur verður reist á Keflavíkurflugvelli Hin íslenska ferða-frelsis-stytta og ljóðið látið fylgja:

Sendið mér ykkar hressu, ykkar ríku

Ykkar einstöku einstaklinga sem þrá að anda að sér hreinasta lofti í heimi

Hin menntuðu og ríku, frá ykkar fjölmennu ströndum

Sendið fulltrúa eignastéttarinnar, frumkvöðla og sprota-stjórnendur

Ég lyfti ljóskeri mínu við landamæri hins frjálsa fjallasalar.

Með þessu er verið að „minnka heiminn“ eins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kemst að orði. „Þróun tækni kallar á það að við séum opin og sveigjanleg gagnvart vaxandi tækifærum sem skapast þegar sífellt fleiri störf eru óháð dvalarstað” segir dómsmálaráðherra, en ráðuneyti hennar er einmitt ábyrgt fyrir því að gera Íslands óaðgengilegt sem dvalarstað fyrir Bassirou og Mahe sem þó hafa sannarlega dvalið hér í ríflega 6 ár og sennilega einhverntímann orðið “Inspired by Iceland” og dvalið með dætrum sínum í víðáttu íslenskrar náttúru, í fjöllum og dölum og bláum söndum, ekki búin að hugsa það alveg til enda að þau væru ekki á sínu “föðurlandi” og ættu ekkert nema vinnuaflið sitt til að komast af á, enga gráðu, engin forréttindi, enga dollara, ekkert eftirsóknarvert fyrir íslenska stjóra og handbendi þeirra. Ekkert nema mennskuna sína en hún er auðvitað einskis virði í þeim ótrúlega samtíma sem örlög þeirra eru að dvelja í.

Ég hef verið að hugsa þetta með sjálfri mér mikið undanfarið: Íslensk stéttskipting hefur látið vaxa inn í sér form af aðskilnaðarstefnu. Það sést með einstaklega skýrum hætti á þessum tímapunkti. Stjórnvöld láta það viðgangast að atvinnulaust fólk þurfi að standa í biðröðum hjálparstofnana til að fá mat handa börnunum sínum. Stjórnvöld láta það viðgangast að 22% kvenna á Suðurnesjum séu án atvinnu og lifi við stórkostlegar efnahagslegar þrengingar. Stjórnvöld hafa látið það viðgangast að hluti vinnuaflsins búi við algjörlega óboðlegrar aðstæður, í ónýtum húsum eða iðnaðarhúsnæði. Þegar verkafólk brann inni í sumar, í húsi sem fullkomin opinber þekking var á að ekki væri mannabústaður vegna niðurníðslu, heyrðust engin harmaljóð frá stjórnvöldum. Öll vita að viðbrögðin hefðu verið önnur ef að fólkið sem brann hefði verið íslenskt fólk, átt heima í fínum húsum í fínum hverfum. Ég er hér að segja það sem öll vita og er sannleikurinn: Á Íslandi er aðflutt verkafólk aðeins virði þess sem hægt er að ná af þeim í formi vinnu og skatta. Það hefur ekki raunveruleg mannréttindi. Það má ekki kjósa og hefur ekkert platform. Það er jaðarsett að því sem næst öllu leiti.

Hvað á ég að kalla þetta annað en aðskilnaðarstefnu?

Forréttindafólkið í stjórnarráðinu ætlar að reka Bassirou og Mahe, Mörtu og Maríu burtu. Litlu stúlkurnar tvær sem tala íslensku, sem hafa leikið sér í íslenska sumrinu og íslenska vetrinum, farið í kuldagalla, pollagalla, stígvél og vettlinga, sett á sig lambshúshettu áður en leikskólakonurnar smala þeim út í frostið til að leika og hlaupa og kalla og hrópa með hinum litlu börnunum og syngja Komdu kisa mín og Krummi svaf í klettagjá verða reknar í burtu með ekkert í farteskinu nema íslenskuna en á henni má víst alltaf finna svar nema við spurningunni sem þær spyrja hver aðra og foreldra sína: Af hverju má ég ekki eiga heima á Íslandi?

En hér er svarið samt, á íslensku: Af því þið eruð eignalausar. Valdalausar. Af því að mamma ykkar og pabbi eru ekki til í augum þeirra sem hér ráða. Þau eru svo jaðarsett að þau eru ósýnileg. Af því að þau eru atvinnulaus og allslaus. Af því að þau eru svört. Og af því að íslensk stjórnvöld vilja taka plássið ykkar og gefa það ríku fólki og peningunum sem það á. Þau vilja taka það af ykkur og færa þeim sem allt eiga og allt mega nú þegar, þeim sem aldrei er fært nóg. Af því að stjórnvöld vilja að íslenskur samtími sé endalaus frásögn af misrétti og misnotkun á valdi. Þið eruð fórnin sem nú skal færa til að senda skilaboðin um veröldina: Hingað er engin velkomin nema ríkt og fínt fólk. Hinn frjálsi fjallasalur skal gerður að útileiksvæði þeirra en þið, litlu stelpur, megið ekki lengur leika sér á leikvellinum sem þið trúðuð um stund að væri ykkar, eins og hinna barnanna. Breiðið nú erindið um heiminn, eða í það minnsta þar í heiminum sem þið lendið:

Til er land langt í burtu. Þar er bjart á sumrin og dimmt á veturna. Þar eru börn saman í leikskóla að leika og læra. En einn daginn kemur svo löggan og tekur sérvalin börn í burtu. Ef þú ert heppin ná leikskólakonurnar að pakka saman fyrir þig myndunum sem þú hefur teiknað og leirnum sem þú hefur leirað og perlunum sem þú hefur perlað; sum börn eru send svo hratt í burtu að litlu sköpunarverkin þeirra verða eftir. Og í þinn stað koma börn forréttindafólks. Þau fá þitt sæti við matarborðið í leikskólanum og skólanum sem skattarnir og gjöldin sem pabbi ykkar og mamma greiddu til samfélagsins fóru í að halda gangandi. Það kemur engin lögga að taka þau. Af því að mamma þeirra og pabbi eiga pening. Af því að á landinu langt í burtu er svo komið fyrir þeim sem ráða að ekkert skiptir þau lengur máli nema hin ríku og ríkidæmi þeirra. Þau aðhyllast aðskilnaðarstefnu og skammast sín ekkert fyrir það.“

https://www.facebook.com/solveig.a.jonsdottir/posts/10224046505647974

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra