Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, að málið sé í vinnslu.
„Utanríkisráðuneytið hefur á síðustu misserum átt í samskiptum við ESA vegna þessa máls en ákvæðið sem um ræðir hefur staðið óbreytt í íslenskum lögum frá því að samningurinn var lögfestur hér á landi og lengst af án nokkurra athugasemda af hálfu ESA. Við höfum lagt í talsverða vinnu við að greina þau álitaefni sem á reynir og ég hef haldið ríkisstjórn upplýstri um framvindu málsins,“
er haft eftir Guðlaugi sem sagði nokkra mánuði til stefnu til að taka afstöðu til sjónarmiða ESA.
„Ég legg hins vegar áherslu á það, eins og við höfum gert í samskiptum við ESA, að framkvæmd EES-samningsins er síst lakari hér en í hinum aðildarríkjunum,“
sagði hann einnig.
Morgunblaðið hefur eftir Sigríði Á. Andersen, formanni utanríkismálanefndar, að enginn vafi sé í hennar huga um að erlend löggjöf gangi ekki framar íslenskri löggjöf og eitthvert álit frá ESA breyti engu þar um. Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng í samtali við Morgunblaðið.