Könnunin var gerð af Ipsos fyrir Reuters og sýna niðurstöðurnar mesta forskot Biden á Trump í heilan mánuð. Könnunin var gerð 2. og 3. október, það er að segja eftir að kjósendur fengu vitneskju um að Trump er með COVID-19.
Það er því ekki að sjá að veikindi Trump og sjúkrahúsinnlögn hans hafi aflað honum samúðar og stuðnings meðal kjósenda. Trump hefur frá upphafi heimsfaraldursins gert lítið úr hættunni sem stafar af veirunni og hefur meðal annars haldið því fram að veiran myndi hverfa af sjálfu sér.
Reuters tók einnig stöðuna á mati Bandaríkjamanna á viðbrögðum Trump við heimsfaraldrinum. Þeir eru ekki sérstaklega ánægðir með þau því 61% telja að „forsetinn væri líklega ekki smitaður ef hann hefði tekið kórónuveiruna alvarlegar“.
Af þeim sem eru skráðir Demókratar telja níu af hverjum tíu að Trump hefði ekki smitast ef hann hefði tekið faraldurinn alvarlegar. Hjá skráðum Repúblikönum er helmingurinn þeirrar skoðunar.
Aðeins 34% kjósenda telja að Trump segi sannleikann um kórónuveiruna og 55% telja hann ljúga um hana. 11% sögðust ekki vita það. 57% aðspurðra tóku afstöðu gegn viðbrögðum Trump við heimsfaraldrinum.