Stjórnmálafræðiprófessorinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson tjáði sig um komandi forsetakosningar í Bandaríkjunum í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Hann benti á að flestir væru að spá Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins, sigri í kosningunum. Hannes segir það rangt, réttara sé að spá Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseta og frambjóðanda Replúblikanaflokksins, tapi.
„Nú líður að lokum forsetakjörsins bandaríska, en allur heimurinn fylgist með því, enda eru Bandaríkin langöflugasta hagkerfi og herveldi heims. Án þess hefðu þeir Stalín og Hitler líklega skipt Norðurálfunni allri á milli sín upp úr 1940. Spekingar þeir, sem koma fram þessa dagana í fjölmiðlum, segja flestir líklegast, að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, muni sigra. Þetta er rangt. Líklegast er, að Donald Trump, núverandi forseti, muni tapa. Þeir, sem kjósa Biden, eru langflestir að kjósa á móti Trump.“
Þá velti Hannes fyrir sér muninum á því að kjósa í kjörklefa og að kjósa í kjörbúð, en honum finnst síðari kosturinn vera sá betri. Hann segir að munurinn felist í því að auðveldara sé að kynna sér „frambjóðandann“ í kjörbúðinni, heldur en í kjörklefanum, því þá viti maður ekki hvað maður fái í hendurnar.
„Þetta leiðir hugann að einum mun á því að kjósa úti í kjörbúð og inni í kjörklefa. Úti í kjörbúð kýs maður með krónunum sínum þá vöru, sem hann vill. Inni í kjörklefa kýs hann með höndunum þann frambjóðanda, sem hann vill stundum ekki, en telur illskárri en keppinauturinn. Biden vekur ekki traust. Hann er gleyminn og reikull í tali og leyfir fjölskyldu sinni að hagnast á nafni sínu. Hann ber með sér, að hann er orðinn 77 ára. En hann nær líklegast kjöri, því að hinn spræki keppinautur hans vekur víða stæka andúð, sem er ekki með öllu óskiljanleg.
Annar galli á kjörklefalýðræðinu, ólíkt kjörbúðalýðræðinu, er að menn vita ekki alltaf, hvað þeir kjósa yfir sig. Úti í kjörbúð geta menn skoðað vöruna, lesið sér til um innihaldið og séð, hvað hún kostar. En inni í kjörklefanum geta menn sjaldnast séð fyrir, hvað muni gerast, sérstaklega í löndum með hlutfallskosningar og samsteypustjórnir, en líka í löndum með tveggja flokka kerfi eins og í Bandaríkjunum, þótt kostir séu þar skýrari.
Og jafnvel þótt bandarískir kjósendur ættu nú orðið að þekkja þá Joe Biden og Donald Trump, vita þeir ekki, hvað kjör þeirra muni kosta. Biden hyggst hækka skatta á hina tekjuhærri og takmarka vinnslu jarðefna. Þetta er hvort tveggja vel fallið til vinsælda, en gæti haft neikvæðar afleiðingar í atvinnulífinu.
Kjarni málsins er sá, að vilji einstaklinganna kemur miklu betur fram, þegar þeir kjósa daglega með krónunum úti í kjörbúð en þegar þeir kjósa með höndunum inni í kjörklefa á fjögurra ára fresti. Þess vegna ætti að flytja sem flestar ákvarðanir frá stjórnmálamönnum og skriffinnum til neytenda og skattgreiðenda.“