Nýlega birti Stundin umfjöllun um umhverfismál þar sem fram kemur að ekkert gler hafi verið endurunnið hér á landi síðustu 30 árin. Ísland er eina Evrópulandið sem endurvinnur ekkert af eigin glerúrgangi.
Þessi grein varð Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, tilefni til skrifa á Facebook í gær þar sem hann lýsti eftir umhverfisráðherra, Guðbrandi Inga Guðbrandssyni. Auk þess segir hann að sú staðreynd að ekkert gler hafi verið endurunnið hér á landi sé hugsanlega brot á EES-samningnum. Í færslu sinni lýsir Ágúst eftir núverandi umhverfisráðherra og ekki bara vegna þessa máls.
- Hvar var umhverfisráðherrann þegar kom að leyfa veiðar á 15 fuglategundum sem eru á skilgreindum válistum yfirvalda sem þýðir að þær eru í hættu?
- Hvar var umhverfisráðherrann þegar ríkisstjórnin heimilaði stórhvalaveiðar næstu árin?
- Hvar var umhverfisráðherrann þegar kom að loftlagsáætlun sem gengur talsvert skemur en hjá nágrannaþjóðum okkar (stefna Íslands er að draga úr losun um 40% en Danmörk er miklu metnaðarfyllri með 70%, ESB ríkin með 60% og Noregur með 55%).
- Hvar var umhverfisráðherrann þegar aukning til umhverfismála í næstu fjárlögum hans nemur einungis 0,1% af landsframleiðslu?
- Hvar var umhverfisráðherrann þegar ákveðið var að málefnasviðið „náttúrvernd, skógrækt og landgræðsla“ fengi LÆKKUN á næsta ári eins og er í fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar?
- Og hvar hefur umhverfisráðherra Vinstri grænna verið undanfarin þrjú ár þegar kemur að endurvinnslu glers?“
Segir Ágúst í færslu sinni.