Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag.
„Í sem stystu máli væri líklega skynsamlegt að stilla slíkri erlendri fjármögnun í hóf á heildina litið, en huga að henni fljótlega,“
er haft eftir Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka.
Markaðurinn skýrði frá því í gær að óvíða í samanburðarlöndunum hefði álíka vaxtahækkun ríkisskuldabréfa átt sér stað og hér á landi. Þessi vaxtahækkun varð til þess að Íslandsbanki ákvað að hækka vexti á íbúðalánum en hana má meðal annars rekja til óvissu um hvernig ríkið ætlar að fjármagna gífurlegan hallarekstur sinn á næstu árum.
Í mars boðaði Seðlabankinn að hann myndi kaupa ríkisskuldabréf fyrir allt að 150 milljarða til að tryggja að lánsfjárþörf ríkisins myndi ekki þrýsta vöxtum upp. En bankinn hefur fram að þessu aðeins keypt ríkisskuldabréf fyrir um 900 milljónir.
Í gær skýrði Markaðurinn frá því að Seðlabankastjóri hafi að undanförnu talað fyrir því innan stjórnkerfisins og í samtölum við ráðherra að ríkið sæki sér lánsfé út fyrir landsteinana, vel á annað hundrað milljarða. Í fjármálaáætlun til næstu fimm ára var opnað fyrir þann möguleika að fjármagna hallarekstur ríkissjóð með lántöku í erlendri mynt.