Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, virðist ósáttur með þá umfjöllun sem myndaðist í kringum ákveðna merkjanotkun lögregluþjóns. Líkt fjölmiðlar fjölluðu um í gær sást lögregluþjónn bera fána á einkennisbúningi sínum, þar á meðal Vínlandsfána, sem hefur verið tengdur við kynþáttahyggju og Thin Red Line-fána með Punisher-merki, sem hefur verið tengdur við andstöðu gegn Black Lives Matter-hreyfingunni.
Í færslu sem birtist á Facebook-síðu Sigmundar notar hann orð eins og „ybbi“ og „hneykslunarfornleifafræði“, máli sínu til stuðnings. Hann vill meina að þegar að fólk sé gagnrýnt fyrir ósæmilega hegðun, þá sé samhengið ekki alltaf til staðar.
„Eitt helsta áhugamál ákafra ybba, austan hafs og vestan, nú um stundir er svo kölluð hneykslunarfornleifafræði. Þá er leitað mörg ár aftur í tímann að einhverju til að hneykslast á. Frægir grínistar hafa t.d. orðið fórnarlömb slíkra „rannsókna” þegar finnast gamlir brandarar eða tíst sem þykja ekki lengur viðeigandi. Þá er þó oft litið fram hjá samhenginu og merkingunni þannig breytt.“
Sjálfur segist Sigmundur vera fánaáhugamaður, þó hann hafi ekki þekkt umræddan Vínlandsfána. Hann segist hafa kynnt sér fánann og komist að því að hann eigi rætur sínar að rekja til bandarískrar þungarokkhljómsveitar og hann tengist jafnan sósíalisma og umhverfisvernd. Hann viðurkennir þó að meðal þeirra sem hafa notað fánan séu kynþáttasinnar.
„Undanfarna daga hafa verið birtar fjölmargar fréttir um hátt í þriggja ára gamla mynd af lögreglukonu eftir að einhver rak augun í fánamerki á búningi hennar.
Mest hefur verið hneykslast á svo kölluðum Vínlandsfána. Þrátt fyrir að vera fánaáhugamaður þurfti ég að fletta fánanum upp. Það tekur þó ekki langan tíma að komast að því að hönnun fánans hafði ekkert með kynþáttahyggju að gera. Fáninn mun uppruninn hjá bandarískri þungarokkhljómsveit og átti að tákna lífsskoðanir hins norræna forsprakka sveitarinnar, þ.m.t. sósíalisma og umhverfisvernd.
Síðan hafa margir hópar notað fánann. Þeirra á meðal eru Skógar-Finnar og áhugamenn um Vínland en einnig kynþáttasinnar.“
Að lokum tekur Sigmundur fram að honum finnist að lögreglan ætti ekki að bera nein merki, nema merki sjálfrar lögreglunnar. Þó segir hann að „árásir“ sem að þessi ákveðni lögregluþjónn varð fyrir hafi verið „óhugnanlegar“. Þá segir hann að „ybbar“ noti nú ljósmyndina umdeildu til að tengja rasisma við alla lögreglumenn.
„Ég er reyndar þeirrar skoðunar að óviðeigandi sé að merkja lögreglubúninga með öðru en merkjum lögreglunnar. Það er hins vegar óhuggnanlegt að sjá hvernig ráðist er á konuna sem mynduð var fyrir nokkrum árum með fánamerkið og henni gerðar upp alls konar hvatir.
Eins og jafnan færa svo ybbarnir sig upp á skaftið. Nú er ljósmyndin notuð til að heimfæra kynþáttahyggju á alla lögreglumenn. Það er illa gert og ber vott um augljósa fordóma þeirra sem slíkt gera.“
https://www.facebook.com/sigmundurdavidgunnlaugsson/posts/1703018016527907