Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Alvotech, sem Robert Wessman, stofnandi þess, stýrir, hafi á undanförnum mánuðum unnið að útgáfu á nýju hlutafé upp á 100 milljónir dollara. Félagið er sagt vænta þess að ljúka útboðinu í nóvember.
Íslenskir lífeyrissjóðir eru sagðir skoða að fjárfesta í fyrirtækinu og hafa fulltrúar þeirra að sögn fundað með stjórnendum og innlendum ráðgjöfum fyrirtækisins á undanförnum vikum. Ef sjóðirnir fjárfesta í fyrirtækinu verður það í fyrsta sinn sem íslenskir stofnfjárfestar koma inn í eigendahóp þess.
Fréttablaðið segir að samkvæmt fjárfestakynningu sé fjármögnun Alvotech ætlað að styðja við rekstur fyrirtækisins fram að skráningu þess í Hong Kong á næsta ári. Fyrirtækið hefur einnig í hyggju að stækka hátækniver sitt í Vatnsmýri, sem var tekið í notkun 2016, þannig að það verði 24 þúsund fermetrar en það er 13 þúsund fermetrar í dag. Áætlaður kostnaður við stækkunina er 4,6 milljarðar króna.
Lyfjafyrirtækið Coripharma er einnig að ganga frá milljarðafjármögnun sem á að renna stoðum undir þróun samheitalyfja hér á landi. Ef fyrirætlanir fyrirtækisins ganga eftir mun velta þess vera um 75 milljónir evra, sem svarar til rúmlega 12 milljarða króna, árið 2025 og það mun skapa 260 störf í þekkingargeiranum.