Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gerir launaþjófnað að umtalsefni í færslu sem hann birtir á Facebook í dag. Þar bendir hann á þá, að hans mati, sorglegu staðreynd, að lítið sem ekkert hafi breyst í íslensku samfélagi síðan í hruninu.
Hvað er þjófnaður?
Ragnar segir að í íslensku samfélagi skiptir máli hvernig menn stela og hverju þeir stela. Samfélagið og löggjafinn hafi ólíka sýn á hvað skilgreinist sem þjófnaður.
Sjálftaka og snúningar innan fjármálakerfisins eru viðtekin venja. Innherjaviðskipti og vinadílar á kostnað almenningshlutafélaga eru flokkaðir sem „djöfulsins snilld“ fína fólksins enda of mikið vesen að gera veður úr slíku þegar undirfjármagnaðar rannsóknarstofnanir eða gagnslausir eftirlitsaðilar mega sín lítils gegn fjársterkum hagsmunaöflum.
Jón og séra Jón
Fjárveitingar stjórnvalda hafi veitt löggjafanum þann ramma að frekar séu menn sóttir til saka fyrir smáglæpi en stóra hvítflippa-glæpi.
Eltast frekar við lambalæri og snúða en milljarða undanskot.
Jóni og séra Jóni standi gjörólíkir valkostir til boða þegar kemur að fjármálum.
Hlutabréfadílar og lántökur án ábyrgða, niðurfellingar skulda með tilfærslum yfir í eignarhaldsfélög er sannanlega ekki sá raunveruleiki sem venjulegt fólk býr við þegar það leitar fyrirgreiðslu eða þarf að semja við bankann þegar áföll dynja yfir.
Eða sækja rétt sinn þegar launum er haldið eftir, stolið, fyrir vinnuframlag.
Raungerist í muninum á því að ef verkamaður, sem væri í vinnu á Landssímareitnum og stelur borvél, og þeirra sem bera ábyrgð á því hvernig almenningshlutafélagið Icelandair, sem var að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða almennings, setja 1,8 milljarð í Lindarvatn þar sem vel „tengdir“ einstaklingar tóku hundruð milljóna króna í þóknanir fyrir fyrirtaks snúning.Hvor ætli verði sóttur til saka ?
Hver er staðan í dag og hefur eitthvað breyst?
Sú sorglega staðreynd er að lítið sem ekkert hefur breyst og margt sem bendir til að staðan hafi versnað til muna.
Spillingin og glæpirnir taka á sig önnur form og finna sér annan farveg, eins og vatnið.
Fjölmörg fyrirtæki, sem mörg hver voru tæknilega gjaldþrota fyrir Covid, nýta sér nú greiðsluskjól til að halda eftir launum sem starfsmenn geta ekki sótt í ábyrgðarsjóð launa. Siðlaust já, en kerfið sér um sína og kerfið ver kerfið.
Á meðan launum og lífeyrissparnaði er stolið af vinnandi fólki án afleiðinga getum við verið viss um að lítið muni breytast í okkar samfélagi og munum við áfram búa við tvöfalt siðferði og tvöfalt dómskerfi þar sem skilgreiningin á því hvernig þú stelur er túlkuð eftir stétt og stöðu.