Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag.
„Allir sem reiða sig á sölu til erlendra ferðamanna eru í taprekstri eins og staðan er í dag. Í raun er tilgangslaust að hafa opið. Betra er að bíða og sjá hvenær fleiri ferðamenn koma til landsins,“
er haft eftir Jóhanni Guðlaugssyni, eiganda Geysis sem rekur ellefu verslanir í miðborginni.
Að minnst kosti 43 verslanir í miðborginni byggja afkomu sína að langmestu leyti á ferðamönnum. Þessar verslanir selja íslenskar vörur, til dæmis ullarvörur eða minjagripi. Af þessum búðum eru 25 svokallaðar Lundabúðir.
Samkvæmt samantekt Markaðarins þá hefur 30 verslunum verið lokað á síðustu vikum og mánuðum. Við skoðun á Lundabúðunum kom í ljós að 23 hefur verið lokað og 11 tæmdar. Segir blaðið að í sumum verslunum hafi pappakössum verið komið fyrir og verði þær því tæmdar.