Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Alþingismaður, hefur beðist afsökunar á að hafa spilað golf í Hveragerði. Málið þykir pínlegt fyrir Þorgerði, enda hafði Golfsamband Íslands beint þeim tilmælum til golfvalla á höfuðborgarsvæðinu að loka sínum völlum og að kylfingar í Reykjavík færu ekki í golfferðir út fyrir mörk höfuðborgarsvæðisins. Segir í tilkynningu GSÍ, orðrétt:
Þá beinir GSÍ þeim tilmælum til kylfinga á höfuðborgarsvæðinu að virða framangreindar takmarkanir og leita þannig ekki til golfvalla utan höfuðborgarsvæðisins, enda hafa yfirvöld beint því til höfuðborgarbúa að vera ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsyn krefur.
Þorgerður Katrín er í stjórn Golfsambandsins.
Samkvæmt heimildum DV vakti vera Þorgerðar á golfvellinum í Hveragerði einhverja furðu meðal sumra. Aðrir kipptu sér lítið upp við að sjá hana þar, enda fastagestur á golfvellinum í mörg ár. Segir Þorgerður í Facebook færslu sinni að hún hafi verið mikið í sveitinni sinni í Ölfus undanfarið, þar sem hún og fjölskyldan halda sitt annað heimili. Hjónin ákváðu að fara í golf seinnipartinn í Hveragerði. „Það hefði ég ekki átt að gera,“ sagði Þorgerður Katrín. Sjá má Facebook færslu Þorgerðar í heild sinni hér að neðan.
Hneykslanin út í golfhring Þorgerðar er sú nýjasta í röðinni af mörgum hleykslunum vegna golfiðkunar og takmörkun á henni í tengslum við Covid faraldurinn. Þannig vakti lokun golfvalla á höfuðborgarsvæðinu talsverða gremju fyrr í vikunni, enda um utandyra iðkun íþrótta að ræða. Slík iðkun er bersýnilega tekin út fyrir sviga í reglugerð Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Þannig hefur GSÍ valið að ganga talsvert lengra en opinberar takmarkanir á starfinu, sem olli titringi meðal kylfinga í borginni.
Þá hafa einhverjir velt því fyrir sér hvernig geti staðið á því að slegist sé um að spila golf í október á Íslandi.