Svona hefst pistill sem Aðalheiður Ámundadóttir, fréttastjóri Fréttablaðsins, skrifar en pistillinn birtist í Fréttablaðinu í dag. „Innsti hringur forsætisráðherra virðist líta svo á að það auki virðingu Katrínar Jakobsdóttur að minna stöðugt á að hún sé kona og henni þurfi að sýna sérstaka virðingu fyrir þá sök. Stuðningsmenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur léku sama leik allt fram í hennar pólitíska andlát, rétt eins og hún hefði ekkert til brunns að bera annað en kyn sitt,“ segir Aðalheiður.
Aðalheiður segir þær konur „sem uppteknastar eru af kyni sínu“ og krefjast þess að standa jafnfætis körlum, heimti á sama tíma sérmeðferð í umræðunni. „En á meðan heykvíslaárásir dynja á samfélagsmiðlum loga skilaboðaskjóður bak við luktar dyr, því fólki ofbýður heiftin. Engum dettur þó í hug að stíga fram í gættina, enda hvers manns bani að grípa til varna fyrir þann sem bannfærður er hverju sinni,“ segir hún.
Aðalheiður talar næst um þjóðfélagshópa sem hafa orðið fyrir kerfisbundinni undirokun. Hún segir þá hafa skorið upp herör gegn meiðandi og ósæmilegri samfélagsumræðu. „Fjölmiðlar hafa þegið ábendingar um hvernig bæta megi umfjöllun, til dæmis um fólk sem ánetjast hefur fíkniefnum og um málefni fólks með geðræn vandamál,“ segir hún.
„Hvert samtal sem skilar jákvæðum framförum umræðunnar er mikilvægt framlag til aukins jöfnuðar og réttlátara samfélags. Ofstopafólk bendir ekki á hvað betur megi fara eða óskar eftir samtali, heldur grípur öfuga endann strax í upphafi og lætur svo hjarðefli samfélagsmiðlanna eftir að hengja gerandann í hæsta gálga.“
Þá kemur Aðalheiður inn á nýlegt mál sem hefur verið mikið í umræðunni. „Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd, var í útvarpinu um helgina. Til umræðu var nýtt fjárlagafrumvarp. Ágúst kenndi ríkisstjórnina við fjármálaráðherra, en ekki forsætisráðherra venju samkvæmt. Meiningin var augljós: Ágústi finnst Bjarni Benediktsson ráða því sem honum sýnist í ríkisstjórninni og fjárlögin vera verk hans og Sjálfstæðisflokksins, fremur en Katrínar og VG,“ segir Aðalheiður og heldur áfram:
„Katrínu var undir eins komið til varnar og virðing hennar endurheimt. Var herinn svo illvígur að Ágúst sá sér ekki annað fært en biðja forsætisráðherra, pólitískan andstæðing sinn, afsökunar á dónaskapnum og nánast sverja henni opinberlega hollustu sína.“
Aðalheiður segir að atvinnuleysið sem Ágúst ætlaði að ræða sé löngu gleymt. „Heykvíslastríðið barst fljótt inn í raðir flokkssystkina hans, sem stukku á vagn pólitískra andstæðinga sinna til að ræða þá virðingu sem sýna þurfi kvenkyni forsætisráðherra.
Það er áhugaverð pólitísk innkoma hjá nýkjörnum formanni Ungra jafnaðarmanna að hefja embættistíð sína á að fara fremst í flokki í árásum á fulltrúa eigin flokks í fjárlaganefnd korteri eftir framlagningu fjárlagafrumvarpsins. Afleiðingin er að fjárlög komandi árs falla í skuggann af því að þingmaður í stjórnarandstöðu sýndi forsætisráðherra ekki næga virðingu í útvarpsþætti,“ segir Aðalheiður og botnar pistilinn með spurningu.
„Getum við ekki lyft umræðunni á plan sem hæfir þeirri alvarlegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir?“