Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, bendir á í nýrri grein á Vísir.is, að í fjárlögum fyrir árið 2021 sé gert ráð fyrir miklum vexti ferðaþjónustu. Segir í fjárlagafrumvarpinu:
„Efnahagsbatinn í spánni er einkum drifinn áfram af vexti í útfluttri ferðaþjónustu, einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu eftir áfall yfirstandandi árs. Á móti vegur aukinn innflutningur. Gert er ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi úr um 500.000 árið 2020 í rúm 900.000 árið 2021 og að það eigi stærstan þátt í að valda því að þjónustuútflutningur vaxi um þriðjung.“
Segir Jóhannes að samkvæmt spánni byggist væntingar ríkisstjórnarinnar á auknum tekjum hins opinbera á næsta ári að miklu leyti á auknum krafti í ferðaþjónustu. Jóhannes telur hins vegar að forsendur þess að þetta geti orðið sé fyrirsjáanleiki varðandi ferðatakmarkanir til landsins til langs tíma því ferðir séu keyptar með löngum fyrirvara:
„Ferðamenn flæða ekki bara út úr flugvélum í Keflavík í maí 2021 eins og skrúfað sé frá krana. Til að ná að tryggja forsendur fjárlaga um 900 þúsund ferðamenn til Íslands á næsta ári þarf að selja þeim ferðirnar með löngum fyrirvara.
Sala ferða til Íslands fer að stórum hluta fram 8-12 mánuðum áður en ferðamaðurinn sest upp í flugvélina. Þannig er bókunartímabil stórra erlendra ferðaskrifstofa á ferðum til Íslands næsta sumar nú þegar hafið. Þessar ferðaskrifstofur selja hundruðum þúsunda ferðamanna Íslandsferðir og eru mikilvægustu samstarfsaðilar Icelandair og annarra ferðaþjónustufyrirtækja.
Eins og staðan er í dag halda þessir stóru aðilar að sér höndum því að óvissa um sóttvarnir á landamærum Íslands kemur í veg fyrir að hægt sé að selja ferðir hingað til lands. Reglurnar eru þær ströngustu í Evrópu og ekkert liggur fyrir um það hvernig eða hvort þær muni breytast inn í næstu mánuði og næsta ár. Það vantar fyrirsjáanleika – reglur sem hægt er að vinna með og treysta á að verði stöðugar.“
Jóhannes segir að fyrirkomulagið á þessu verði að liggja fyrir snemma, helst innan einhverra vikna, ef ferðaþjónustan eigi að ná sér á strik á næsta ári:
„Þá segir Jóhannes að þær fullyrðingar að allir séu hvort eð er hættir að verðast vegna mikillar sóknar kórónuveirunnar um heiminn, séu rangar. Flugferðum um heiminn hafi fjölgað mikið frá því faraldurinn náði hámarki í vor og meginástæða þess að hingað komi nær engir erlendir ferðamann núna séu ferðatakmarkanirnar, sérstaklega 5-6 daga sóttkvíin sem allir er hingað koma til lands verði núna að fara í. Staðhæfir hann að hægt sé að liðka þessar reglur án þess að auka sótthættu.
Jóhannes segir í lok greinar sinnar hvað hann telur að gera þurfi til að ferðaþjónustan standi undir væntingum á næsta ári:
Því er alveg ljóst að ef núverandi reglur verða áfram í gildi og ekkert liggur fyrir um nýja og fyrirsjáanlega aðferðafræði gagnvart sóttvörnum og ferðamönnum munu forsendur fjárlaga um tekjuöflun ríkisins og hagvöxt á næsta ári verða brostnar áður en árið 2021 er gengið í garð, því að sala ferða til Íslands á næsta ári mun að stærstum hluta liggja niðri vegna óvissu um sóttvarnareglur. Verðmætasköpunin getur þá ekki hafist af þeim krafti sem til þarf.
Ef hins vegar eru settar fyrirsjáanlegar og varanlegar reglur um sóttvarnir á landamærum sem ferðamenn, ferðaskrifstofur og flugfélög geta treyst á og unnið með (og rétt er að geta þess að það er hægt án þess að auka áhættu umfram núverandi reglur) er möguleiki að tryggja þá verðmætasköpun sem möguleg er við núverandi aðstæður og tryggja þann grunn að efnahagslegri viðspyrnu samfélagsins sem við þörfnumst öll. En tíminn til þess er talinn í vikum, ekki mánuðum.“