Ágúst Ólafur Ágústsson hefur beðist afsökunar á ummælum sem hann lét falla í útvarpsþættinum Sprengisand á Bylgjunni um helgina.
Þar kenndi hann ríkisstjórn Íslands við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, og sagði hann ráða yfir forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. Ágúst hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þessi ummæli sem þykja fela í sér kvenfyrirlitningu og þótti það vera þingmanninum til vansa að láta þau út úr sér.
Nú hefur Ágúst Ólafur formlega beðist afsökunar í færslu sem hann birti á Facebook rétt í þessu. Segist hann ekki hafa ætlað að gera lítið úr forsætisráðherra, í reynd beri hann mikla virðingu fyrir henni og hafi aðeins ætlað að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn og það vægi sem flokkurinn hafi fengið í ríkisstjórninni.
„Ég vil biðjast afsökunar á orðum mínum í Sprengisandi á Bylgjunni í gær. Ég komst illa að orði og þykir leitt að hafa sett þau fram með þeim hætti að ég gerði lítið úr forystuhlutverki Katrínar Jakobsdóttur.
Ég ætlaði mér ekki að gagnrýna eða draga í efa forystuhæfileika Katrínar sem ég ber mikla virðingu fyrir heldur var ætlunin að gagnrýna pólitík Sjálfstæðisflokksins, sem mér finnst ráða of miklu í áherslum þessarar ríkisstjórnar, sérstaklega í fjárlögum og fjármálaáætlun þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fer með málaflokkinn.
En að sjálfsögðu ber Katrín ábyrgð á þessari ríkisstjórn og þessum fjárlögum og því hefði ég viljað sjá meiri áherslu á félagshyggju og umhverfismál í þeim.“