Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hafi lagt fram fyrirspurn um þetta í júní og nú hafi henni verið svarað. Þessar 821.088 krónur eru umfram þær 1,6 milljónir sem eru greiddar fyrir aðgang. Í aðganginum er innifalið kaffi úr vél og kolsýrt vatn. Greitt er sérstaklega fyrir sérgerða kaffidrykki, gosdrykki og aðrar veitingar, þar með talið áfenga drykki.
Í svari borgarritara kemur fram að um sé að ræða kostnað vegna veitinga á starfsdögum, vegna starfsþróunarsamtala, funda, námskeiða og ráðstefna hjá þeim starfseiningum borgarinnar sem eru með aðgangskort.
Mesti kostnaðurinn var hjá Þróunar- og nýsköpunarsviði, um 270.000 krónur. Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara kom þar á eftir með tæplega 155.000 krónur og Menningar- og ferðamálasvið var með rúmlega 120.000 krónur.