fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Útflutningsverðmæti fiskeldis stefnir í 25 milljarða króna – Yfir 90% aukning milli ára

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 8. janúar 2020 12:30

Mynd- Vestfjarðastofa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 2,9 milljörðum króna í nóvember, eða sem nemur tæpum 100 milljónum króna fyrir hvern einasta dag mánaðarins. Það er næstmesta verðmæti í einum mánuði, en hæst fór það í október, tæplega 3,1 milljarð króna.

Miðað við sama tíma árið 2018 er um ríflega tvöföldun að ræða, bæði í krónum talið og erlendri mynt. Gengi krónunnar var að jafnaði um 2% sterkara í nóvember en í sama mánuði árið á undan, samkvæmt tölum Hagstofunnar og greint er frá á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Mestu munar um eldislax
Alls var fluttur út eldislax fyrir um 2,4 milljarða króna í nóvember, sem er um 151% aukning frá nóvember árið 2018. Þar af nam útflutningsverðmæti lifandi eldislax, þar með talið seiði, 387 milljónum króna en slíkur útflutningur hefur aukist verulega að undanförnu. Ætla má að þar sé um frjóvguð hrogn að ræða, sem er afar verðmæt framleiðsla enda hátækniafurð. Útflutningsverðmæti silungs nam 461 milljón króna í nóvember og jókst um tæp 60% frá sama mánuði 2018.

Komið upp í rúma 23 milljarða
Á fyrstu 11 mánuðum nýliðins árs er útflutningsverðmæti eldisafurða komið upp í rúma 22,9 milljarða króna. Það er um 92% aukning í krónum talið á milli ára en um 72% að teknu tilliti til gengisáhrifa. Það er stóraukin framleiðsla sem skýrir þessa aukningu, sér í lagi á eldislaxi.

„Í upphafi árs höfðum við gert ráð fyrir að útflutningsverðmæti eldisafurða yrði í kringum 24 milljarða króna í ár. Líkur er á að það verði nærri lagi, en miðað við þróunina er líklegt að útflutningsverðmæti eldisafurða verði í kringum 25 milljarða í ár,“

segir á vef SFS.

Þar segir ennfremur að fiskeldi sé kærkomin búbót fyrir þjóðarbúið:

„Efnahagsleg hagsæld Íslendinga er, sem endranær, verulega háð útflutningi og því fleiri sem stoðirnar eru og um leið fjölbreyttari, því meiri verður hún. Slíkur ábati ætti að vera enn augljóslegri eftir þau áföll sem dundu yfir stærstu útflutningsgreinar landsins á nýliðnu ári og áhrif þeirra á þjóðarbúið. Gefur því auga leið að ofangreind þróun í fiskeldi er afar kærkomin búbót við útflutningsflóru þjóðarbúsins. Það er þó enn sem komið er smátt í sniðum, miðað við stóru útflutningsgreinarnar þrjár, það er ferðaþjónustu, sjávarútveg og álframleiðslu, en í því felast mikil tækifæri til verðamætasköpunar í framtíðinni og þar með að auka útflutningstekjur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt