fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Segir einvígi framundan milli Framsóknarflokksins og Miðflokksins

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 7. janúar 2020 11:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir einvígi framundan í aðdraganda kosningaárs, milli Framsóknarflokksins og Miðflokksins:

„Reglulegar kosningar til Alþingis fara væntanlega fram á næsta ári, þ.e. 2021, ef ekkert óvænt kemur upp á og þess vegna má búast við að þetta ár einkennist á hinum pólitíska vettvangi af því, að flokkarnir leitist við að skapa sér betri vígstöðu, en sumir þeirra hafa nú.

Að hluta til má búast við að næstu alþingiskosningar einkennist af eins konar einvígi á milli Framsóknarflokksins og Miðflokksins. Hinn síðarnefndi hefur yfirhöndina í skoðanakönnunum og þess vegna má ætla að forystusveit Framsóknarflokksins leggi áherzlu á að styrkja stöðu flokksins á þessu ári. Það þarf meira til en nokkra síðustu mánuði fyrir kosningar til þess að gera slíkt,“

segir Styrmir.

Litlir kærleikar

Sem kunnugt er andar köldu á milli formanna flokkanna og er Miðflokkurinn stofnaður í kjölfar taps Sigmundar Davíðs fyrir Sigurði Inga í formannskjöri Framsóknarflokksins í október árið 2016. Þá var Wintris málið ennþá flestum í fersku minni, en Sigmundur Davíð hlaut samt 46.8 % atkvæða en Sigurður Ingi sigraði með 52.7% atkvæða.

Þetta var augljóslega áfall fyrir Sigmund, sem stóð ekki upp úr sæti sínu þegar úrslit voru ljós til að klappa fyrir nýkjörnum formanni, heldur rauk út úr Háskólabíói í fússi án þess að óska Sigurði Inga til hamingju eða taka í hendur samflokksmanna, líkt og tíðkast.

Sigurður Ingi þakkaði hinsvegar Sigmundi fyrir formannstíð sína í ræðu:

„Ég vil nota tæki­færið og þakka Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni.  Ég vil að þið standið upp. Hann var rétt­ur maður á rétt­um tíma fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn þegar hann kom fram. Ég bið ykk­ur um að standa upp og gefa hon­um gott klapp.“

Sterkari Miðflokkur

Miðflokkurinn fékk 10.9% í kosningunum 2017. Hann hefur verið upp og niður í skoðanakönnunum frá stofnun, ekki síst strax í kjölfar Klausturmálsins þegar hann mældist í kring um fimm prósent. Síðan hefur hann verið nokkuð stöðugur í kringum 10-12 prósent, en fór hæst í um 17 prósent (MMR) í nóvember þar sem afstaða hans gegn þriðja orkupakkanum taldist honum til tekna.

Framsókn hefur hinsvegar hæst farið í um 13.5 % í febrúar 2019. Lægst fór hann í 7.3% í apríl 2019, en fékk 10.7% í kosningum.

Óvenjuleg staða

„Framsóknarflokkurinn er að sumu leyti í óvenjulegri stöðu,“ segir Styrmir. „Áður fyrr horfði hann ýmist til hægri eða vinstri varðandi stjórnarsamstarf. Frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar hefur hann aðallega horft til hægri. En jafnframt hafa málefnaáherzlur hans breikkað. Tveir af ráðherrum Framsóknarflokksins eru með málefni á oddinum í sínum ráðuneytum, sem sýna þetta. Annars vegar er um hið viðamikla barnaverkefni Ásmundar Einars að ræða. Hins vegar er augljóst að síðasta Pisa-könnun mun móta mjög næstu mánuði og misseri í ráðuneyti Lilju Daggar. Sennilega mun árangur Framsóknarflokksins í næstu kosningum ráðast mjög af því, hvernig þessum tveimur ráðherrum Framsóknar gengur að koma því til skila til kjósenda, að í báðum tilvikum er um að ræða einhver stærstu framtíðarmál þjóðarinnar.“

Miðflokkurinn hefur reglulega mælst stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi og er næst stærstur flokka þegar kemur að þingmannafjölda, en sem kunnugt er fékk hann liðstyrk frá Flokki fólksins í kjölfar Klausturmálsins og fjölgaði þá um tvo, úr sjö í níu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK