Bolli Héðinsson hagfræðingur skrifar háðslega grein í Kjarnann um skilning Vinstri grænna á veiðigjöldum og grundvallaratriðum hagfræðinnar í dag. Hún byggist að vísu aðeins á samtali hans við ónefndan frammámann í VG, sem hann tekur fram að sé ekki talsmaður flokksins.
En ef heimfæra má skilning þessa frammámanns í VG á veiðigjaldinu og kaupmætti á þingflokkinn, er kannski ástæða til að hafa áhyggjur, ef marka má skrif Bolla:
„Ég spurði hann hvort Vinstri græn ætluðu ekki að fara að færa eitthvað af arðinum af fiskveiðiauðlindinni frá Samherja til þjóðarinnar, sem hins réttmæta eiganda auðlindarinnar? Svarið sem ég fékk var: „Veiðigjaldið er nær því sem það ætti að vera en áður.“ Þá spurði ég hvernig hann vissi hvert veiðigjaldið ætti að vera en fékk ekki svar við því.
Hér eru merk tíðindi á ferðinni. Eru til upplýsingar hjá Vinstri grænum þar sem kemur fram hver fjárhæð „rétts“ veiðigjalds á útgerðina á að vera og gildir þetta e.t.v. um fleira? Ef maður hyggst leigja út íbúðina sína er þá hægt að hringja á flokksskrifstofuna og fá upplýsingar um hvað sé hið „rétta“ verð sem ætti að leigja íbúðina á?“
spyr Bolli.
Hann ræddi einnig um gjaldhækkanir ríkis og sveitarfélaga um áramótin við þennan frammámann í VG, sem munu augljóslega rýra þann kaupmátt sem lífskjarasamningarnir höfðu í för með sér, hefði einhver haldið:
„Þessar gjaldahækkanir eru til að tryggja að opinber þjónusta haldi í við verðlag og því í samræmi við það sem byggt er á lífskjarasamningnum. Hér er ekki um raunhækkanir að ræða,“
sagði frammámaðurinn í VG að sögn Bolla, sem telur þetta svar kúnstugt:
„…því öllum launamönnum er ljóst að það er til lítils að fá launahækkun ef flest það sem á að kaupa fyrir launahækkunina hækkar í verði. Þá er launahækkunin til lítils og kjarabótin engin. Kaupmátturinn batnar ekki nema launin hækki en kostnaðurinn við að lifa haldist óbreyttur.
Samkvæmt skilningi þessa frámámanns Vinstri grænna þá gildir þetta ekki um verðhækkanir hins opinbera. Einhvern veginn sér hann fyrir sér að hærri kostnaður við að framfleyta sér og sínum rýri samt ekki kjör launafólks af því að þetta eru kostnaðarhækkanir hins opinbera. Þetta er alveg ný túlkun á kaupmætti og hvernig kaupmáttur helst þrátt fyrir að dýrara sé að framfleyta sér.“