fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Mogginn hjólar í góðgerðarsamtök og ver þá „brjálæðislega“ ríku – „Gerir ekki endilega aðra fátæka“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 22. janúar 2020 10:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skýrsla Oxfam góðgerðarsamtakanna um misskiptingu auðs í heiminum kemur út árlega og vekur jafnan nokkra athygli. Hún kom síðast út í fyrradag þar sem kemur meðal annars fram að 22 ríkustu einstaklingar í heiminum eigi meiri pening en allar afrískar konur til samans, og að tæplega 2200 milljarðamæringar eigi meiri auð en 60% mannkyns, eða um 4.6 milljarðar manna.

Skýrslan er jafnan gefin út í tilefni af fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss og er byggð á gögnum frá Forbes og Credit Suisse bankanum í Sviss.

Vegið að þeim ríku

Blaðamaður Morgunblaðsins, Ásgeir Ingvarsson, fjallar um skýrsluna í pistli í Viðskiptamogganum í dag. Heitir pistillinn „Til varnar þeim brjálæðislega ríku“ hvar sett er fram gagnrýni á forsendur skýrslunnar og inntak hennar:

„Enginn varð fátækari við það að Bill Gates og Jeff Bezos urðu ofsaríkir og margt er bogið við árlega herferð Oxfam gegn milljarðamæringum,“

segir í inngangi og bætir Ásgeir við að jafnan sé skýrsla Oxfam birt í fjölmiðlum án gagnrýni:

„Um þetta leyti árs, í þann mund sem auðkýfingar heimsins taka sér stutt hlé frá því að arðræna verkalýðinn til að halda heljarinnar skrall í Davos, hefur Oxfam það fyrir sið að birta útreikninga sem eiga að minna á hvað auðlegð heimsins er misskipt og hvað allir hafa það skítt. Framsetningin er alltaf mjög krassandi og flestir fjölmiðlar endursegja fréttatilkynningar Oxfam gagnrýnilaust.“

Villandi ógagn

Þá segir Ásgeir skýrsluna villandi og gera meira ógagn en gagn:

„Það er sjálfsagt og eðlilegt að hafa áhyggjur af þeim sem hafa úr litlu að moða, en málflutningur Oxfam er villandi og gerir líklega meira ógagn en gagn ef markmiðið er að bæta kjör þeirra fátækustu. Árlegur áróður Oxfam elur á andúð í garð duglegra og snjallra einstaklinga sem skapað hafa gríðarleg verðmæti, öllu mannkyni til hagsbóta, og lítur alfarið fram hjá því hvort kjör fólksins á botninum fara batnandi óháð því hvernig þeim reiðir af sem tróna á toppnum.“

Skrambans kapítalisminn

Ásgeir nefnir að í dag séu aðeins um 650 milljón manns í heiminum sem búi við sára fátækt, en á fjöldi hafi verið tæplega tveir milljarðar fyrir 30 árum:

„Skrambans kapítalisminn; alltaf að skemma fyrir þeim sem þrástagast á því að við þurfum að éta þá ríku, annars svelti þeir fátæku. Benda allar mælingar til þess að aldrei í sögunni hafi fleiri haft það jafn gott, og þróunin jafnt og þétt í þá átt að þeir framfarakraftar sem kapítalisminn nær að virkja muni halda áfram að stórbæta lífskjör bæði þeirra sem eiga mikið og þeirra sem eiga minna en ekkert.“

Brelluútreikningar

Ásgeir fettir einnig fingur út í útreikninga Oxfam og segir þá byggja á brellu:

„Nánari skoðun leiðir í ljós að útreikningar Oxfam byggjast á brellu, og ekki ólíklegt að nokkuð margir lesendur blaðsins tilheyri þessum sárafátæku 60% jarðarbúa þó að þeir hafi það fjarskafínt. Oxfam skoðar nefnilega hreina eign fólks, þ.e. eignir að frádregnum skuldum, frekar en lífsgæði eða tekjur,“

segir Ásgeir og útskýrir að þannig sé til dæmis nýútskrifaður verkfræðingur á Íslandi með fimm ára námslán á bakinu flokkaður í fátæklingahópinn hjá Oxfam, þó svo viðkomandi eigi bíl, tölvu og snjallsíma, og fullan fataskáp og ísskáp:

„Hún fær þrusuvel borgað og fer í páskafrí til Balí – en einhvern veginn stillir Oxfam því upp að hún hafi verið arðrænd af Bill Gates, Jeff Bezos og þeirra slekti, því þeir borgi ekki nærri því nógu háa skatta. Um fjórðungur Bandaríkjamanna skuldar meira en hann á en býr samt ekki við skort. Það sama á eflaust við í Evrópu. Fyrir utan þann lykilsannleik að það að sumir skuli vera ríkir gerir ekki endilega aðra fátæka.“

Þá segir Ásgeir eins manns brauð ekki endilega annars manns dauða:

„Núna eru auðæfi Jeff Bezos metin á 131 milljarð dala – af hverjum var allur þessi auður tekinn? Hvað um 96 milljarðana hans Bill Gates? Er einhver sem getur bent á hann og sakað um þjófnað?“

spyr Ásgeir og bætir við:

„En er ekki fólkið á gólfinu hlunnfarið? Er ekki skömm að því hvernig farið er með starfsmennina í vöruhúsum Amazon, sem strita á lágmarkslaunum? Er ekki afleitt að vinna hjá Walmart? Besta svarið við þessari spurningu er: væru starfsmennirnir betur staddir ef fyrirtækjanna sem þeir vinna hjá nyti ekki við? Værum við öll betur stödd ef ekki væri fyrir alla milljarðamæringana?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK