Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman breytingar á fasteignagjöldum milli áranna 2019 og 2020 í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Breytingarnar eru reiknaðar í krónum miðað við meðal fasteigna- og lóðamat í ákveðnum hverfum hjá þeim sveitarfélögum sem eru til skoðunar en fasteignagjöld eru í flestum tilfellum lögð á miðað við fasteigna- og lóðamat.
Margar hækkanir eru langt umfram þau loforð sem gefin voru í tengslum við lífskjarasamningana en Samband íslenskra sveitarfélaga lýsti stuðningi við þau með tilmælum til sveitarfélaga um að gjaldskrárhækkanir vegna ársins 2020 yrðu ekki umfram 2,5%.
Gjöld á 100 fm íbúð í fjölbýli hækka mest á Sauðárkróki um 14,93% eða 36.991 kr. en næst mest á Egilsstöðum um 11,06% eða 29.515 kr. Ef miðað er við 200 fm einbýli hækka gjöldin mest á Egilstöðum, 10,3% eða um 46.756 og næst mest í Glerárhverfi á Akureyri um 7,7% eða 27.000 krónur.
Í Seljahverfinu í Reykjavík nemur hækkunin 3.22 prósentum, líkt og sjá má í töflunni:
Fasteignagjöldin lækkuðu mest í Keflavík sé miðað við 100 fm fjölbýli, -9,61% eða 28.722 kr. og næst mest í Njarðvík, -3,88% % eða um 10.223 kr. Sé miðað við 200 fm einbýli lækkuðu fasteignagjöldin mest á Ísafirði, -9,3% eða um 38.969 kr. og næst mest í Njarðvík, -4,4% eða um 24.364 kr.
14,9% hækkun á fasteignagjöldum í fjölbýli á Sauðárkróki
Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðaleigu, fráveitugjöld, vatnsgjöld og sorphirðugjöld. Þau eru í flestum tilfellum reiknuð sem hlutfall af fasteigna- eða lóðamati nema sorphirðugjöld sem eru föst krónutala. Breytingar á fasteigna- og lóðamati hafa því áhrif á hina endalegu álagningu fasteignagjalda og er í samburðinum hér tekið tillit til þess.
Þá eru vatnsgjöld og fráveitugjöld í sumum tilfellum reiknuð sem föst krónutala auk gjalds á hvern fermetra íbúðarhúsnæðis. Erfitt getur verið að átta sig á heildarbreytingu sveitarfélaga á fasteignagjöldum þar sem breytingar á hverjum lið vega misþungt. Þannig eru fasteignaskattar t.d. yfirleitt mun hærri krónutala en vatnsgjöld og vega hækkanir á fasteignasköttum því þyngra en á vatnsgjöldum. Til að varpa betra ljósi á hvernig breytingar sveitarfélaga á fasteignagjöldum milli ára koma út í heild hafa þær verið teknar saman og reiknaðar út í krónutölum fyrir mismunandi tegundir húsnæðis.