Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hyggst gefa kost á sér á ný í embættið en hann hefur nú setið í því í þrjú ár. Guðni var kjörinn forseti Íslands vorið 2016.
Þetta kom fram í nýárávarpi forsetans á RÚV. Guðni sagði að ákvörðun sem þessi væri engan veginn sjálfsögð og væri aðeins tekin eftir að hafa ráðfært sig vel við sína nánustu.
Ef ekki kemur fram mótframboð við Guðna verður hann sjálfkjörinn forseti lýðveldisins næstu fjögur árin. Ef einhver býður sig fram til embættisins verða haldnar forsetakosningar í vor.
Nýársávarp forseta Íslands var eftirfarandi:
Góðir landsmenn.
Við hjónin óskum ykkur árs og friðar. Megi von búa í hugum fólks við þessi tímamót, megi nýtt ár verða okkur öllum farsælt og heilladrjúgt. Um slíkar óskir ættum við öll að geta sameinast og reyndar má segja að sá sé einn helsti tilgangur þessa ávarps, að efla bjartsýni frekar en bölmóð, auka samhug frekar
en sundurlyndi. Vart yrði því vel tekið ef sá eða sú, sem situr á forsetastóli, horfði í ólund fram á veg, með allt á hornum sér á hátíðarstundu.Nei, nú skal vorhugur ríkja þótt skammdegið sé sem lengst, myrkrið sem mest. En vissulega þurfa óskir okkar að ríma við þann veruleika sem við blasir og vænta má. Minnumst þess að nýliðið ár var mörgum erfitt á ýmsa lund. Hjá sumum kvaddi sár harmur dyra, margir glímdu við veikindi og gera jafnvel enn.
Hugsum hlýtt til þeirra sem eiga bágt um þessar mundir, þeirra sem standa höllum fæti.Von og raun vegast gjarnan á. Hér á Bessastöðum bjó skáldkonan Theódóra Thoroddsen um þarsíðustu aldamót með Skúla sínum og barnaskara þeirra. Kannski var það hér sem hún orti svo:
Gleðisjóinn geyst ég fer,
þó gutli sorg und kili.
Vonina læt ég ljúga að mér
og lifi á henni í bili.Vísan er athygli verð. Nöldur yrði illa séð í þessari ræðu, satt er það, en værum við betur sett með loftkastala og skýjaborgir? Liggur ekki beinast við að varast glansmyndir, ofmat og dramb en leyfa sér engu að síður að líta til framtíðar með von í augum og þor í anda?
Og er nokkur ástæða til annars, þegar allt kemur til alls? Kannanir á nýliðnu ári benda til þess að landsmenn séu upp til hópa sælir og sáttir við sitt hlutskipti. Í alþjóðamælingum um jafnrétti, öryggi og önnur lífsins gæði trónum við í toppsætum, einatt með öðrum ríkjum á Norðurlöndum. Að fæðast og búa á þessum slóðum er því líkast að fá stóra vinninginn í happdrætti heimsbyggðarinnar.
Sú lukka féll okkur þó ekki í skaut af himnum ofan. Eldri kynslóðir þessa lands eiga þakkir skildar fyrir sinn atbeina, því megum við halda til haga. Og já – ég veit. Ekki líður öllum vel hér og það var svo margt sem aflaga fór áður fyrr, svo margt sem nú má gera enn betur.
Í veröld okkar daga stoðar auk þess lítt að huga bara að sínu. Loftslagsvá viðurkennir ekki landamæri og við henni verður að bregðast. Um það sammæltust fulltrúar flestra ríkja heims á tímamótaráðstefnunni í París fyrir rúmum fjórum árum og ekki virtist skorta á vilja íslenskra stjórnvalda, hvorki þá
né nú. Einhugur um næstu skref er ekki í augsýn á alþjóðavettvangi en þetta er ljóst: Gegndarlaus nýting og neysla er gervilausn hins liðna, ofgnótt hér og skortur þar er vandi okkar daga og ný hugsun er nauðsynlegt ákall nýrra tíma.Í bók sinni Um tímann og vatnið bendir Andri Snær Magnason rithöfundur á þessi sannindi ‒ en bætir við að ekki sé öll nótt úti enn: „Það er samt ekki endilega neikvætt að vera hluti af kynslóð sem þarf að breyta hlutum,“ sagði hann í viðtali um verkið. Mannkyn er ekki horfið fram af barmi hengiflugs þótt
leita þurfi róttækra og raunhæfra aðgerða í bráð og lengd. Ég bið ykkur hin yngri sérstaklega að íhuga þessi skilaboð; greina má framtíðarangist meðal sumra ungmenna en með því að eiga von látum við hana ekki ljúga að okkur heldur vekja til dáða.Svo er það samstaða okkar og nauðsyn hennar. Hún má ekki vera alltumlykjandi, þvinguð og innantóm. Ólíkir hagsmunir einkenna mannlífið, ólík sjónarmið og ólíkar þrár. Þannig á það að vera í frjálsu landi og framsæknu. En það er nú sem betur fer svo að þrátt fyrir allan okkar mismun og alla okkar misklíð eigum við svo ótalmargt sameiginlegt, við sem búum hér, fólkið á þessum stað, í nánd við hafið og fjöllin eins og segir í lagi Óla „popp“, Ólafs Ragnarssonar. Við eigum tunguna saman og hvetjum alla, sem hingað flytja og auðga mannlífið, til að temja sér hana. Við eigum okkar menningararf, margslunginn og háðan hinum og þessum túlkunum, en einingarafl hans lokkar alltaf og laðar.
Og við höfum reynt sitthvað saman. Hér hefur verið harðbýlt, sjósókn hættusöm og á landi hefur vá leynst víða, skriðuföll og snjóflóð, jarðskjálftar og jarðeldar, hvers kyns háski og hættur. Nú búa flestir landsmenn í borg og bæ en þjóðarímynd okkar hefur mótast af náinni sambúð við náttúruna og hennar mikla afl. Þegar farið er með þetta ljóð Látra-Bjargar frá átjándu öld er sem við heyrum vindinn hvína og sjáum löðrið ýra ‒ og við finnum það öryggi sem felst í að njóta birtu og yls innan dyra:
Orgar brim á björgum,
bresta öldu hestar,
stapar standa tæpir,
steinar margir veina.Góðir Íslendingar: Á því ári, sem nú er að hefjast, minnumst við þess að aldarfjórðungur verður liðinn frá snjóflóðunum mannskæðu í Súðavík og á Flateyri. Þau gleymast engum sem þá voru komnir til vits og ára, ekki frekar en álíka áföll fyrr á tíð. Liðsmenn björgunarsveita og aðrir á vettvangi lögðu allt sitt
af mörkum í leit að lífi, leiðtogar landsins og þjóðin öll báðu saman, stóðu saman.Blessunarlega hafa hamfarir af þessu tagi ekki dunið yfir á nýrri öld. Varnargarðar voru reistir, viðbúnaður aukinn víða. Og blessunarlega hefur okkur jafnan tekist að bregðast við áföllum, læra af biturri reynslu. Í landi elds og ísa varðar miklu að vera við öllu búinn.
Já, það eru gömul sannindi og ný að framtíðin er óráðin. Hulda, ljóðskáldið góða sem samdi lýðveldiskvæðið „Hver á sér fegra föðurland“, orðaði þá hugsun einkar vel: „Enginn sem vermist við geisla sólarinnar veit hvort hann muni sjá hana að morgni.“ Og margir kannast eflaust við sama anda þakklætis og æðruleysis í nýrri boðskap Braga Valdimars Skúlasonar: „Líttu sérhvert sólarlag, sem þitt hinsta væri það.“
Kæru landsmenn: Senn líður að lokum þessa kjörtímabils míns í embætti forseta Íslands. Rúmlega þrjú ár eru að baki, viðburðarík og minnisstæð. Hvað tekur við? Því ræður auðna en segja má tímabært og tilhlýðilegt að lýsa því nú yfir að ég hyggst gefa kost á mér til frekari setu hér á Bessastöðum.
Í þessum efnum er ákvörðun aldrei sjálfsögð. Hana hlýtur maður að taka að vel athuguðu máli, í ljósi fenginnar reynslu, í samráði við sína nánustu. Þegar fyrri forsetar stóðu í svipuðum sporum í fyrsta sinn var tilkynning um framboð gefin þegar nær dró fyrirhuguðum kjördegi en flest er breytingum háð í heimi
hér. Þeir, sem sinna þessu embætti, móta það eftir eigin óskum og tíðaranda, með hliðsjón af venju og hefð, og innan þess ramma sem stjórnskipun leyfir.Stjórnarskrárnefnd situr nú að störfum, eins og svo oft áður. Nefndarmenn hafa hreyft þeirri hugmynd að takmarka hversu lengi hver megi vera á forsetastóli. Þá hafa þeir rætt aðrar breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um völd og verksvið þjóðhöfðingjans. Þessu ber að fagna. Alkunna er að undanfarin ár hefur verið tekist á um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, það verk sem lofað var að ráðast í við lýðveldisstofnun.
Lengst vilja þeir ganga, sem hampa nýrri stjórnarskrá stjórnlagaráðs, skemmst hinir sem telja að litlu sem engu þurfi að breyta. Lyktir munu ráðast af vilja kjósenda og þeirra fulltrúa sem þeir velja til setu á Alþingi. Eðlilegt er að forseti hverju sinni fylgist með framvindu á þessum vettvangi og leggi sitt til mála ef þurfa þykir.
Kæru landar: Hvern dag finn ég þá ábyrgð sem þessu starfi fylgir, hvern dag finn ég þann einstaka heiður sem mér hlotnaðist. Við Eliza kona mín þökkum þann hlýhug sem við höfum notið. Við þökkum líka að Íslendingar leyfa ábúendum á Bessastöðum að eiga sitt fjölskyldu- og einkalíf í friði. Ekki geta þjóðhöfðingjar í mörgum öðrum löndum gengið að því sem vísu. Við þökkum þá ljúfu skyldu að kynna Ísland og Íslendinga á erlendri grundu, efla þar þekkingu á menningu okkar og mannlífi, sögu liðinnar tíðar og sóknarfærum samtímans. Og við þökkum góð kynni við svo fjölmarga hér heima, kynni við unga sem aldna, kynni við nýja íbúa landsins og hina sem geta rakið ættir sínar til Egils Skallagrímssonar eða Auðar djúpúðgu, kynni við konuna sem kaus mig og kvaðst ekki sjá eftir því, og karlinn sem kvaðst ekki
hafa komið til hugar að kjósa mig en óskaði mér samt góðs gengis.Ég þakka einnig velvild forvera minna hér á Bessastöðum, Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar, og lipur samskipti við ráðherra, alþingismenn úr öllum flokkum og annað áhrifafólk. En fyrst og fremst þakka ég þau forréttindi að finna æðaslátt lífsins í þessu mæta landi okkar, fylgjast með
löndum mínum í daglegu amstri og samgleðjast með fólki – með fólki íatvinnulífi, nýsköpun og vísindum, í menningu, menntum og íþróttum.Á herðum þess, sem þennan stað situr, hvílir einnig sú skylda að sýna þeim samhug sem eiga um sárt að binda; að láta þá finna, sem lítið ber á og mætt hafa mótbyr, að öll eigum við okkar tilverurétt. Öll eigum við rétt á virðingu og tækifærum til að láta ljós okkar skína.
Já, öll erum við einstök, þegar vel er að gáð er enginn eins og fólk er flest og „skrýtnastur er maður sjálfur“, skrifaði Nóbelsskáldið. Sameiginlega þræði má samt finna, einhvers konar þjóðareinkenni þótt ætíð þurfi að varast fordóma og sleggjudóma á því sviði.
En við getum verið þrasgjörn, því verður seint neitað. „Engin þjóð í heiminum … tekur eins mikil reiðiköst … eins oft,“ sagði einn landi okkar í fyrra, svellkaldur náungi sem hikar ekki við að segja skoðun sína umbúðalaust – og það má reyndar kallast annar þjóðarsiður, oft til góðs en hitt er annað mál og
verra að láta allt flakka án nokkurrar ígrundunar. Við getum líka átt erfitt með að vera samtaka, undir aga, í takti. „Það erbara einhvern veginn ekki til í miðtaugakerfinu hjá okkur,“ fullyrðir tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson og veit sínu viti, búinn að fylgjast með ófáum Íslendingum á dansgólfinu í áranna rás.Við getum víst virst lokuð í augum annarra, fámál og seintekin. Samt sem áður erum við löngum lofuð utan landsteinanna, lofuð fyrir það frjálsræði sem hér ríki, lofuð fyrir djörfung og hug. „Það er bara ekki í erfðaefni Íslendinga að gefast upp,“ sagði erlendur landsliðsþjálfari nýlega og lýsti þannig vel eldmóð
stelpnanna og strákanna okkar í keppni við þá bestu. Við getum staðið saman þegar á reynir og við getum snúið smæð okkar í styrk. Þau eru ekki mörg löndin þar sem allir virðast þekkja alla ‒ og hér tel ég
það til kosta þótt þessu geti jafnframt fylgt augljós vandræði, vinhygli, spilling og hvers kyns freistni. En þau eru ekki heldur mörg löndin þar sem þriðjungi íbúa er hægt að bjóða í saumaklúbb með því að senda óvart erindi á rangan hóp á Fésbók eins og gerðist hér seint á síðasta ári. Þau eru ekki mörg löndin þar sem rúmlega einn af hundraði er í framboði í sveitarstjórnarkosningum eins og raun var í hittifyrra. Skil milli almennings og valdhafa eru ekki eins skörp hér og víða ytra.Kæru landar: Það bar til þá daga sem ég lagði drög að þessu ávarpi að ég var spurður einfaldrar spurningar: Hvað óttastu mest um framtíð Íslands? Eftir stutta umhugsun kvaðst ég helst óttast að ágreiningur og illdeilur yfirgnæfi einingu um grunngildi okkar, og sömuleiðis að almenn vongleði og dugur víki smám saman fyrir svartsýni og doða. Og hvað þarf til að svo fari ekki? Hver eru grunngildin? Á hverju getur vonin byggt? Ekki á lygi og svör verða seint einhlít en sé okkur ókleift að sameinast um það sem hér fer á eftir er illt í efni: Við þurfum að verja og efla það samfélag sem veitir öllum jöfn tækifæri til að sýna hvað í þeim býr en knýr fólk um leið til að leggja fram sinn sanngjarna skerf í almannaþágu. Enginn má skerast úr leik og allra síst með bellibrögðum. Við þurfum samfélag þar sem þeir
njóta aðstoðar sem á henni þurfa að halda, þar sem enginn í nauðum þarf að ganga með betlistaf. Við þurfum samfélag víðsýni, umburðarlyndis og réttlætis,samfélag fjölbreytni, frelsis og friðar.Með breiðri sátt um þessa þætti er okkur óhætt að horfa vonaraugum fram á veg. Fyrir hönd okkar Elizu óska ég ykkur öllum gæfu og gengis. Gleðilegt nýtt ár.