Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur kynnt til leiks á samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um breytingu á áfengislögum. Snýr frumvarpið einna helst að því að afnámi einkaréttar Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins á verslun í smásölu með áfengi og að heimila innreið vefverslana á markaðinn. Þá er gert ráð fyrir í frumvarpinu að brugghúsum verði gert heimilt að selja eigin framleiðslu beint til einstaklinga í smásölu.
Sambærilegt frumvarp hefur áður birst á samráðsgátt og fór fram mikil umræða í samfélaginu um ágæti þess. Sagði Áslaug Arna að þarna væri verið að færa Ísland nær evrópskum raunveruleika, en víða í Evrópu blómstra vefverslanir með áfengi og hafa Íslendingar geta keypt áfengi af þeim löglega í mörg ár.
Hvað varðar sölu brugghúsa á eigin framleiðslu gerir frumvarpið ráð fyrir talsverðum takmörkunum á þeirri heimild. Þannig verður sölustaður áfengisins festur við framleiðslustað áfengisins. Segir í umsögn um frumvarpið á samráðsgáttinni að horft hafi verið til lagasetningar í Norðurlöndunum og þá sérstaklega í Finnlandi sem tóku árið 2018 upp sambærilegar undanþágur frá einkarétti ríkisrekinna áfengisverslana fyrir smærri brugghús.
Á Íslandi hefur orðið sprenging í fjölda smærri brugghússa, svokallaðra handverksbrugghúsa um allt land á síðustu árum. Árið 2018 stofnuðu þau Samtök íslenskra handverksbrugghúsa, sem hefur á undanförnum misserum barist fyrir þeim breytingum sem Áslaug leggur nú fram. Þau hafa bent á í sínum rökum að þau sjá mikil tækifæri í ferðaþjónustu og að gríðar mikill áhugi sé meðal erlendra ferðamanna að skoða handverksbrugghús hér á landi. Til þess að fullnýta þau tækifæri þykir nauðsynlegt að þeim sé gert kleift að selja framleiðslu sína á staðnum. Segir í umsögn í samráðsgátt: „Með frumvarpinu er leitast við að styðja við áframhaldandi vöxt og þróun á rekstrarumhverfi smærri brugghúsa á Íslandi.“
Þá er bent á það að erfitt getur verið fyrir smærri brugghús að koma vörum sínum að hjá ÁTVR vegna stífra skilmála sem verslunin setur birgjum sínum. Þetta eigi sérstaklega við framleiðendur sem einbeita sér að áfengum drykkjum í litlu magni í tímabundinni framleiðslu.
Sem fyrr segir verður sala öls á framleiðslustað ýmsum takmörkunum og skilyrðum háð. Þannig má til dæmis framleiðslan ekki vera meira en 500.000 lítrar á ári og rykkurinn má ekki vera sterkari en 12%.