Sara Oskarsson, listmálari og varaþingmaður Pírata, veltir fyrir sér hvort nýsköpunarráðherra Íslands skilji um hvað nýsköpun snýst í pistli sem hún birti í dag hjá Vísi.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði á nýafstöðnu Iðnþingi Samtaka iðnaðarins að nýsköpun gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu okkar og sé rauði þráðurinn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Finnst Söru skjóta skökku við að Þórdís hafnað hugmyndum um að hækka endurgreiðslu framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð úr 25 prósentum yfir í 35 prósent.
„Annað hvort skilur ráðherra ekki um hvað nýsköpun snýst eða ráðherra skilur ekki eðli kvikmyndaframleiðslu. Þar að auki virðist ráðherra annað hvort ekki hafa kynnt sér ofangreinda kynningu á dagskrá þingsins sem hún ávarpaði, nú eða það að hún er ósammála því sem þar kemur fram.“
Sara segir kvikmyndagerð í eðli sínu nýsköpun og gefur hún lítið fyrir rök Þórdísar um að kvikmyndagerð á Íslandi sé þegar rótgróinn atvinnuvegur og fullkomlega alþjóðlega samkeppnishæf eins og hún er.
„Reyndir aðilar úr bransanum hérlendis hafa fullyrt að þessi hækkun á endurgreiðslum myndi flýta fyrir ákvörðunum erlendra framleiðenda um að koma með verkefni til Íslands. Það er hörð samkeppni í kvikmyndageiranum á alþjóðavettvangi og oft má litlu muna þegar að verkefni eru ‘nöppuð’ hvert þau fara.“
Gott dæmi um þetta sé Netflix myndin um Eurovisionkeppnina. Hana hafi upprunalega átt að taka upp að mestu á Íslandi en vegna veikingar krónunnar var ákveðið að taka frekar upp atriði sem áttu að sýna íslenska náttúru í Skotlandi.
„Hefði öll myndin verið tekin upp hér hefði það aukið framleiðsluupphæðina hérlendis um marga milljarða.“
Vegna kórónuveirufaraldursins hafi ferðaþjónustan á Íslandi, þjóðarinnar stærsti atvinnuvegur, fengið gríðarlegt högg. Kvikmyndaframleiðsla gæti vegið þar á móti.
„Þegar að um erlend verkefni er að ræða í kvikmyndaframleiðslu kemur hingað til lands fólk sem nýtir sér hótelgistingu, bílaleigur, veitingastaði og ýmiskonar innlenda þjónustu og afþreyingu. Iðnaðurinn hefur því alla burði til þess að leika stórt hlutverk í að styðja við ferðaþjónustuna og brúað bilið þar til greinin fær uppreist æru að ‘COVID loknu’. Önnur lönd hika ekki við að fara þessa leið.“
Kvikmyndaframleiðslan sé atvinnuskapandi og góð leið til að markaðssetja landið á jákvæðan máta enda segi um fjörutíu prósent ferðamanna að þeir hafi sótt Ísland heim vegna þess að þeir sáu landið í sjónvarpsþætti eða kvikmynd. Kvikmyndagerð sé verðmætaskapandi útflutningsgrein og hér á landi væri lítið mál að gera þessa grein enn stærri, ef áhugi væri fyrir hendi.
„Það væri sárara en tárum taki að missa af þessu einstaka tækifæri sem núna gefst þegar að margt er að breytast á ógnarhraða á heimsvísu. Vegna sérstöðu Íslands er landið eitt af fáum þar sem hægt er að framleiða efni í núverandi árferði og það væri því óðs manns æði að stökkva ekki á tækifærið til að marka Ísland í alþjóðlegu samhengi sem framúrskarandi land nýsköpunar- kvikmyndaframleiðslu.
Hækkun endurgreiðsla er næsta rökrétta skrefið í þeim efnum, og boltinn er hjá ráðherra. Vonandi skilar hann sér í mark.“