fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Halldór Benjamín gerðist skáldlegur í Silfrinu – „Baráttan er vonlaus þegar miðin eru dauð“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 27. september 2020 12:04

Halldór Benjamín Þorbergsson. Skjáskot RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vitnaði í Bubba Morthens í lok viðtals síns við Fanneyju Birnu Jónsdóttur í Silfrinu á RÚV, þegar hann lýsti horfum varðandi væntanlega atkvæðagreiðslu atvinnurekenda um að segja lífskjarasamningnum upp. „Baráttan er vonlaus þegar miðin eru dauð,“ sagði hann.

Halldór hefur kallað eftir því að verkalýðshreyfingin fallist á að fresta launahækkunum tímabundið á meðan kórónveirukreppan varir, en fengið þvert nei. Hann sagði að SA hefði stungið upp á þremur leiðum til að bregðast við ástandinu. Í fyrsta lagi að fresta launahækkunum samningsins tímabundið, í öðru lagi að  lækka mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði tímabundið og í þriðja lagi að fresta endurskoðun kjarasamninga tímabundið, því koma bóluefnis fyrir COVID-19 gjörbreyti efnahagsforsendum á næsta ári.

Halldór segir að allar tillögurnar hafi fengið þvert nei hjá verkalýðshreyfingunni. Sagði hann verst að verkalýðshreyfingin hafi ekki gefið kost á því að fara inn í samtalið og ræða lausnir heldur bara neitað öllum tillögum. „Við erum til í að skoða allar útfærslur en vandamálið er þegar mótaliðinn segir, ég ætla ekki að ræða þetta við þig. Þá erum við í dálitlum vanda.“

Segir Hallór að atvinnurekendur ljái máls á því að vaxtareikna frestaðar launahækkanir og bæta þannig upp frestunina með vöxtum.

Fanney benti Halldóri á að ástandið væri mjög misjafnt eftir geirum atvinnulífsins. Halldór tók undir það en hélt því þó fram að allir hefðu orðið fyrir einhverjum búsifjum. Vandinn væri einnig sá að kjarasamningar væru almenns eðlis og það gengi alltaf jafnt yfir alla að þurfa að efna þá, líka þá sem hafa engin efni á launahækkunum.

„Það eru 900 milljarðar horfnir út úr hagkerfinu á samningstímanum og hver launahækkun kostar á bilinu 45 til 50 milljarða,“ sagði Halldór.

Hann segist hafa þá trú að atvinnuleysi sé eitur í beinum Íslendinga og hann vilji gera allt sem í hans valdi stendur til að vinna gegn því. „Markmið mitt er að ná fram skynsamlegri niðurstöðu fyrir samfélagið. Það er ekki rétt að skipta öllum í lið, maður finnur til með fólki sem missir vinnuna en allt bendir til að atvinnuleysi haldi áfram að aukast á næstunni, október, nóvember og á næsta ári, þar til við sjáum fyrir endann á þessu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði