fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Kolbrún kallar Bolla tuðara eftir að hann úthúðaði Degi: „Lætur nöldrið dynja á honum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 24. september 2020 09:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Flestir hafa einhvern tíma verið í návist einstaklings sem hefur unun af að tuða. Þar sem tuðarinn telur sig eiga brýnt erindi og ætlast til að aðrir taki mark á honum
breiðir hann úr sér á alla kanta meðan yfirþyrmandi þreytutilfinning hellist yfir hlustandann. Hann vill umfram allt forða sér en finnur ekki útgönguleið því tuðarinn hefur læst klóm sínum í hann og lætur nöldrið dynja á honum og ætlast til samþykkis,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir í leiðara Fréttablaðsins í dag. Þar tekur hún til bæna Bolla Kristinsson kaupmann fyrir framgöngu hans í fjölmiðlum undanfarið.

Bolli keypti á dögunum opnuauglýsingar í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og DV þar sem hann úthúðar Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og telur upp 19 ávirðingar vegna frammistöðu hans í starfi. Í viðtali við DV í síðustu viku sagði Bolli að atriðin í auglýsingunni hefðu hæglega getað orðið hundrað. Segir Bolli meðal annars að Laugavegurinn sé orðinn draugagata vegna lokunar gatna og fækkunar bílastæða.

Kolbrún afgreiðir kvartanir Bolla sem tuð og segir hann ekki einan um að vera haldinn þessari áráttu gagnvart borgarstjóranum. Hún skrifar:

„Borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, er vissulega ekki hafinn yfir gagnrýni og á löngum stjórnmálaferli hefur hann örugglega gert sín mistök. Það verður þó ekki af Degi haft að hann er yfirleitt velviljaður og réttsýnn. Þetta eru góðir eiginleikar í lífinu sjálfu en í pólitíkinni eru þeir ekki mikils metnir. Pólitík byggir að of stórum hluta á útúrsnúningum, upphrópunum, illvilja og alls kyns gjammi. Dagur er ekki þannig stjórnmálamaður, ólíkt sumum í minnihluta borgarstjórnar sem virðast beinlínis hafa unun af að opinbera dónaskap sinn sem allra oftast.

Borgarstjórinn svaraði Bolla á þann kurteisa hátt sem hans var von og vísa. Hann benti á að Bolli býr á Spáni. Nú getur íbúi á Spáni vissulega haft skoðun á málefnum Reykjavíkurborgar, en þá er betra að hann hafi gengið um götur borgarinnar, ekki bara einu sinni heldur margoft. Þá hefði hann til dæmis séð að miðbærinn hefur breyst til hins betra og að Laugavegurinn er ekki draugagata eins og haldið er fram í auglýsingunni.“

Kolbrún segir að COVID og aðgerðir vegna faraldursins hafi vissulega lamað miðborgina síðustu mánuði. En það standi allt til bóta: „Þegar þessi leiðindapest – sem ekki verður skrifuð á ábyrgð borgarstjóra – er frá þá hefst eðlilegt líf að nýju og miðbærinn mun blómstra. Það er til nokkurs að hlakka.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Ég mun flytja skrifstofu utanríkisráðherra út á land – jarðtengingin er svo mikilvæg

Þorgerður Katrín: Ég mun flytja skrifstofu utanríkisráðherra út á land – jarðtengingin er svo mikilvæg
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar