Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að samtals hafi óbundnar innistæður heimilanna verið 609 milljarðar í lok júlí og höfðu þá aukist um 81 milljarð frá áramótum. Samkvæmt vaxtatöflum bankanna voru nafnvextir á veltireikningum 0,05% og óbundnir reikningar voru með 0,15% vexti. Seðlabankinn gerir ráð fyrir 3% verðbólgu út árið. Þetta þýðir að neikvæð raunávöxtun innlána verður á bilinu 2,85% til 2,95% á ársgrundvelli ef aðstæður breytast ekki.
„Aukin óvissa verður til þess að heimili draga saman seglin og auka lausafjárstöðu til að mæta áfalli, til dæmis atvinnumissi. Á meðan óvissan varir er ekki óeðlilegt að fólk vilji hafa beint aðgengi að sparnaði sínum, en þegar við förum að sjá til lands þá geta þessir fjármunir leitað í fjárfestingar, til dæmis fasteignir eða hlutabréf, ef ekki þarf að nota þá til þess að halda uppi neyslu,“
sagði Valdimar Ármann, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance í samtali við Markaðinn.