Svona hefst pistill sem Álfrún Perla Baldursdótti, þáttakandi í ACONA-fræðasamfélaginu (The Arms Control Negotiation Academy), skrifar en ACONA-fræðisamfélagið er samstarfsverkefni á milli samningatæknideildar Harvard-háskóla, Höfða friðarseturs og fleiri alþjóðlegra rannsóknastofnanna um afvopnunarmál og alþjóðlega samningatækni. Pistillinn birtist í Morgunblaðinu með yfirskriftinni „Kominn tími til að ræða gereyðingarvopn?“.
„Eftir kalda stríðið hefur almenn umræða um afvopnunarmál og kjarnorkuvopn minnkað og næstum horfið hér á landi. Kannanir sýna að almenningur í Evrópu hefur helst áhyggjur af öryggi tengdu farsímanum sínum en langtum aftar á listanum eru áhyggjur af kjarnorkuvopnum og öðrum gereyðingarvopnum,“ segir Álfrún í pistlinum.
Álfrún segir að ef til vill mætti halda að minni umræða og minni hræðsla við slík vopn þýddi að heimurinn væri nú orðinn öruggari staður en áður. „Helstu sérfræðingar í afvopnunarmálum halda því hins vegar fram að stríð milli ríkja með kjarnorkuvopnum hafi aldrei verið líklegra,“ segir hún og bætir við því að ástæðurnar fyrir því séu nokkrar.
„Þar má nefna auknar líkur á átökum milli kjarnorkuríkja, fyrir mistök eða ekki, í öðrum ríkjum eins og til dæmis Sýrlandi. Einnig má nefna óskýrar línur stríðs og friðar með tilkomu nýrra vopna eins og netárása, falsfrétta og íhlutana í kosningum annarra ríkja. Þá hefur skapast mikil óvissa um framtíð vopnatakmarkana með endalokum samningsins um takmörkun meðaldrægra kjarnaflauga (INF-samningurinn), úrsögn Bandaríkjanna úr samningnum um opna lofthelgi (Open Skies-samningurinn) og óvissa um framtíð nýja START-samningsins.“
Samkvæmt Álfrúnu þá stöndum við frammi fyrir þeim veruleika að ef ekki verður gripið til aðgerða gætu fljótlega engir afvopnunarsamningar verið í gildi í heiminum í fyrsta skipti síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. „Að lokum má nefna að aðrar áhyggjur öryggissérfræðinga eru að almenningur sé orðinn ómeðvitaðri um öryggismál en áður. Það mætti því segja að aukin umræða hér á landi sem og annars staðar um afvopnunar- og öryggismál sé grundvöllur fyrir því að skapa friðsamari heim. Allir geta því lagt sitt af mörkum með því að taka þátt í umræðunni og veita stjórnvöldum aðhald og eftirlit.“