fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Hart tekist á í Silfrinu: „Eigum við að taka á móti öllum? Svaraðu því“ – „Það er skömm og það er hneisa“

Máni Snær Þorláksson
Sunnudaginn 20. september 2020 12:31

Samsett mynd, skjáskot úr þættinum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Silfri Egils á RÚV í dag var hart tekist á milli Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns sem sagði sig úr VG í vikunni, og Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um mál egypsku barnafjölskyldunnar sem vísa átti úr landi í vikunni en fjölskyldan fer enn huldu höfði.

„Hér hefur í raun og veru engin stefna verið til síðast liðin þrjú ár í málefnum flóttamanna og þeirra sem leita eftir hæli hér á landi,“ sagði Rósa og bætir við að þingnefnd um málefni útledinga hafi verið nánast lömun þessi þrjú ár. „Málefni barnafjölskylda sem horfast í augu við brottvísun hafa ítrekað komið upp á yfirborðið þar sem almenningur hefur látið til sín taka. Á þessum tíma hefur í raun og veru engin stefna komið fram í þessum málum. Það er mjög bagalegt og dapurlegt að sjá það í ríkisstjórnartíð sem leidd er af vinstrihreyfingunni grænu framboði.“

„Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að draga línu í sandinn“

Rósa sagði að tíð Sigríðar sem dómsmálaráðherra hafi verið lagt fram frumvarp um hælisleitendur og útlendinga sem síðan hafi verið lagt fram ítrekað, bæði af Þórdísi Kolbrúnu og Áslaugu Örnu í þann tíma sem þær hafa verið gengt því embætti sem dómsmálaráðherra. „Það frumvarp er svo gagnrýnisvert að Rauði krossinn á Íslandi hefur sent inn 25 blaðsíðna umsögn sem gagnrýnir mjög alvarlega megininntakið í því frumvarpi. Þegar þetta frumvarp var lagt fram af núverandi dómsmálaráðherra í apríl síðastliðnum þá gerði ég alvarlegar athugasemdir við það og sagði frá því opinberlega að ég myndi leggjast gegn því frumvarpi,“ sagði Rósa.

„Mér finnst þessi viðbrögð Áslaugar Örnu við brottvísun barnafjölskyldunnar bera vitni um það að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að draga línu í sandinn, búinn að ákveða að taka þessa hörðu línu þegar kemur að brottvísun barnafjölskyldna. Það þykir mér óskaplega mikill miður að það sé gert í ríkisstjórn sem leidd er af VG.

„Það er alveg óumdeilt“

Sigríður mótmælti því að hún væri stefnulaus og leiðrétti Rósu, hún hafi ekki lagt fram frumvarpið sem Rósa talaði um. „Það breytir því ekki að í gildi eru alveg þokkalega ágæt lög um útlendinga sem hafa reynt að taka á þessu umhverfi hælisleitanda, flóttamanna hins vegar og síðan útlendinga í þriðja lagi, almenna sem koma hingað til að lifa og starfa,“ sagði Sigríður.

„Ég man eftir því í síðustu ríkisstjórn, með Viðreisn og Bjartri Framtíð. Þá þóttust menn í samstarfsflokkunum hafa miklar áhyggjur af þessum málum og vildu gefa sig út fyrir að vera hér með opið land og annað. Ég þreytist nú ekki á því að benda á að Ísland er mjög opið, við erum með hátt í 50 þúsund útlendinga sem lifa og starfa hér, til lengri eða skemmri tíma. En gott og vel, ég hvatti þá ráðherra til þess að fara í þá vinnu, sem ég held að ennþá þurfi að gera. Það er að fara í gegnum þessar reglur sem lúta að atvinnumöguleikum fólks utan EES svæðisins sem hingað vill koma til að vinna. Ég veit ekki til þess að nokkur vinna hafi farið fram á þessum vettvangi og alveg örugglega ekki í þessari ríkisstjórn, ekki hef ég heyrt af því. Það er alveg óumdeilt að þetta myndi létta af álagi á hælisleitendakerfið ef það væru hér einhverjar leiðir fyrir fólk utan EES svæðisins til að koma hingað inn.“

„Menn reyna ýmislegt til þess að fara framhjá reglunum“

Þá fór umræðan nánar út í egypsku fjölskylduna. „Þau fá höfnun fyrir mörgum mánuðum síðan og svo dregst það að vísa þeim úr landi, nú eru þau búin að vera hér í tvö ár. Er það bara þannig að þau hefðu alveg eins getað verið hér svo árum skipti og svo mættti allt í einu vísa þeim úr landi?“ spurði Fanney Birna Jónsdóttir, þáttastjórnandi Silfursins, Sigríði.

Sigríður segir að svo sé ekki. „Það hefur verið takmarkað, þessi mánaðarfjöldi, sem veldur því að ekki er hægt að vísa úr landi. Eins og ég skil þetta mál þá hafði þetta fólk ekki verið það lengi. Þetta fólk uppfyllti ekki tímarammann. Gallinn við allar svona reglur er sá að þá er það orðið sjálfstætt markmið hjá fólki að dvelja hérna, koma sér undan því að svara spurningum, leggja fram þau gögn og þar fram eftir götunum, jafnvel fara í felur, til þess að draga þennan tíma eins lengi og hægt er,“ segir Sigríður.

Rósa mótmælir þessu, að þetta sé gert af yfirlögðu ráði. Sigríður segir að hún sé ekki að fella dóm yfir öllum þeim sem koma hingað í leit að hæli. „Ég er að segja að það eru dæmi um það að menn reyna ýmislegt til þess að fara framhjá reglunum, til þess að reyna að uppfylla skilyrðin til þess að fá hæli.“

„Við viljum hafa gættir hérna í kringum landið“

„Af hverju er fólk að koma hingað?“ spyr Rósa þá. „Sumt fólk er auðvitað að leita að betra lífi, að sjálfsögðu. Menn hafa mun mis ríkar ástæður til þess að vera á flótta. Frá mínum bæjardyrum er það auðvitað stórkostlega mikil ástæða að fara í annað land, að leita að nýju lífi, að renna betri stoðum undir sinn eigin efnahag. Mér finnst það mjög virðingarvert, og okkur finnst það öllum, virðingarvert markmið. Það breytir því ekki að ekkert landd getur tekið á móti öllu fólki sem hafa slíkar aðstæður, það er vandinn sem stjórnvöld standa fyrir,“ segir Sigríður.

„Það er auðvitað rosalega gott að sitja hjá sér heima í stofu og spyrja aftur og aftur: Af hverju má þetta fólk ekki bara vera? Það væri mjög lítið mál að taka á mótti hálfri millljón umsókna um dvalarleyfi hér á Íslandi. Það tæki mjög skamman tíma að safna því upp. Við viljum hafa ákveðið landamæraeftirlit hér í kringum Ísland, við viljum hafa gættir hérna í kringum landið,“ segir Sigríður og bætir við að hún vilji fá útlendinga hingað til að búa, þar sem íslenskt efnahagslíf gæti ekki blómstrað án þeirra.

„En við getum ekki fallist á það að fólk komi hingað, mögulega á fölskum forsendum, að óska eftir hæli ef að ástæðan er bara sú að búa sér og börnunum sínum betra líf því það er betra að vera á Íslandi en annars staðar. Það er mjög virðingarvert markmið en það er bara ekki alveg í samræmi við það sem við getum staðið undir.“

„Svaraðu því“

„Það hlýtur að vera markmið okkar stjórnmálamanna að hafa einhverja stefnu,“ segir Rósa. „Eigum við að taka á móti öllum? Svaraðu því,“ segir Sigríður. „Viltu taka á móti öllum barnafólki sem kemur hingað?“

„Ég myndi gjarnan vilja taka á móti öllum börnum sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd. Fylgdarlausum börnum hefur verið vísað á brott frá Íslandi og það er skömm og það er hneisa,“ segir Rósa en Sigríður útskýrir að það sé gert til þess að koma fjölskyldum aftur saman. „Stjórnvöldum ber skylda að sameina börn við fjölskyldur sínar,“ segir Sigríður.

„Ég bíð bara eftir boði frá Sigríði“

Þrátt fyrir að hafa tekist harkalega á í þættinum þá enda þær á góðu nótunum. Rósa sagði sig úr þingflokki VG í vikunni og er nú utan flokka. „Ertu í einhverju samráði við aðra flokka á þingi?“ spurði Fanney. „Ég bíð bara eftir boði frá Sigríði,“ segir Rósa og Sigríður svarar því. „Hún var einmitt að spyrja mig hvenær landsfundur Sjálfstæðisflokksins yrði hérna í sminkinu,“ sagði Sigríður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði