„Óveðursskýin voru vissulega farin að hrannast upp í lok síðasta árs,“ sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, í setningarræðu Iðnþingsins í gær. „Hagkerfið var farið að kólna, óvíst var um frekari vöxt og hvaðan hann ætti að koma. Heimsfaraldurinn hefur svo algjörlega breytt forsendum á alla kanta,“ sagði Árni en hann taldi að þjóðin mætti ekki missa neinn tíma. Næstu 12 til 18 mánuði verði ákvarðanir og aðgerðir þýðingarmiklar og á slíkum krossgötum verði að hugsa stórt.
Árni lagði meðal annars til að auka fjárframlög í Tækniþróunarsjóð og að endurgreiðsluhlutfall vegna kostnaðar við gerð erlendra kvikmynda á Íslandi verði hækkað. Einnig sagði hann að það væri mikilvægt að byrja að byggja nýjan Tækniskóla og að hægt væri að flýta uppbyggingu á innviðum með því að opna fyrir þátttöku einkafjárfesta.
Árni sagði að álögur á atvinnulífið væru komnar langt úr hófi og einboðið væri að lækka skattheimtu til þess að styðja aukna verðmætasköpun. „Fjölgun starfa er forgangsatriði og hvatar sem þessir munu skila árangri samstundis,“ sagði Árni. Þá sagði hann það vera ljóst að kaupmáttur launatekna muni rýrna í þessari kreppu.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, lauk þinginu með svipuðum orðum og Árni opnaði það með. Sigurður talaði einnig um óveðursský en hann sagði þau enn vofa yfir þjóðinni. Tvær grunnstoðir íslenska hagkerfisins væru valtar, ferðaþjónustan og orkusækinn iðnaður. Lausn Sigurðar á þessu er að reisa nýja fjórðu stoðina sem myndi felast í hugviti og nýsköpun.