Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, skrifar reglulega pistla í helgarblað DV sem nefnast Á þingpöllum. Að þessu sinni beinir Björn Jón athygli sinni að Róbert Spanó, forseta mannréttindadómstóls Evrópu, sem hefur verið harðlega gagnrýndur eftir að hann þáði heiðursdoktorsnafnbót frá Tyrklandi.
_______________________
Mér er nær að halda að það hafi verið fordild en ekki hefð, sem réði því að Róbert Spanó þáði þessa vegtyllu,“ skrifaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra á Facebook-síðu sína á dögunum. Tilefnið var heimsókn Róberts Spanó, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, til Tyrklands, þar sem honum var veitt heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Istanbúl. Hún bætti því við að sér þætti dapurlegt að fylgjast með heimsókninni og sagði Spanó eiga að „vita það manna best að það vantar mikið upp á að mannréttindi séu virt og farið sé að reglum réttarríkisins í Tyrklandi.“
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, tók í sama streng og minnti á að mannréttindi væru fótum troðin í landinu, fjöldi fræðimanna og blaðamanna hefði verið hrakinn úr starfi og margir fangelsaðir, fyrir að hafa það eitt til saka unnið að andmæla stjórn Recep Tayyip Erdogans, Tyrklandsforseta. Í grein í Morgunblaðinu sagði Jón Steinar m.a.: „Hvers vegna heldur Róbert Spanó að Tyrkir hafi viljað hengja á hann orðu? Dettur honum ekki í hug að það kunni að vera vegna viljans til að gera hann vinveittan þeim stjórnvöldum í þessu landi, sem sífellt þurfa að verja hendur sínar fyrir dómstólnum?“
Ekki endilega verið að lýsa velþóknun
Fleiri hafa blandað sér í umræður um málið, þeirra á meðal Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem er á öndverðum meiði við Ingibjörgu Sólrúnu og Jón Steinar. Hún segir fulltrúa dómstólsins verða að vera óhlutdræga gagnvart aðildarríkjum Mannréttindasáttmálans.
Þessi deila er áþekk mörgum fyrri þrætum um það hvort áhrifaríkara sé að hunsa miður þokkaða ráðamenn í ríkjum þar sem mannréttindi eru fótum troðin, eða halda við þá talsambandi og reyna að hafa áhrif með þeim hætti. Hér bætist við, líkt og Þórhildur Sunna bendir á, að Tyrkland er aðili að Evrópuráðinu og Mannréttindadómstólnum. Það, að hitta að máli erlenda ráðamenn eða þiggja vegtyllur einhvers, felur ekki endilega sjálfkrafa í sér velþóknun á öllum gjörðum viðkomandi ráðamanns eða þess sem veitti vegtylluna.
Þjóðræknislegur tónn
Deilan um þessa tilteknu heimsókn er vitaskuld léttvæg í samanburði við stóra málið: Vernd mannréttinda í álfunni, og augljóst að ýmsir (þó ekki allir) þeirra sem gagnrýnt hafa Tyrklandsheimsóknina eru hinir sömu og fundu að dómi og málsmeðferð Mannréttindadómstólsins í svokölluðu Landsréttarmáli. Þar taldi dómstóllinn að íslenska ríkið hefði gerst brotlegt við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þegar dómari við Landsrétt — sem Mannréttindadómstóllinn taldi að skipaður hefði verið með ólögmætum hætti — dæmdi í máli manns. Í 6. gr. sáttmálans segir að hver sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi eigi rétt á réttlátri málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.
Umræðan um Landsréttarmálið var um margt þjóðræknisleg og ýmsir málsmetandi menn og konur tóku sér stöðu „með“ íslenska ríkinu líkt og um kappleik væri að ræða — eða átök við erlent stórveldi. Þarna kvað við nýjan tón í umræðunni. Ekki hafði áður borið mikið á því að niðurstöður Mannréttindadómstólsins vektu pólitískar deilur hér á landi — hvað þá að mikilsmetnir lögfræðingar legðu sig jafnvel í framkróka við að finna að störfum Mannréttindadómstólsins í ræðu og riti
Í þessu sambandi má minna á að Bjarni Benediktsson eldri, þá utanríkis- og dómsmálaráðherra, sagði í ræðu á Alþingi þegar rætt var um fullgildingu Mannréttindasáttmálans árið 1951 að íslenska ríkið yrði þar með „skuldbundið inn á við gagnvart sínum þegnum“. Bjarni virtist því beinlínis gera ráð fyrir því að íslenskir ríkisborgarar gætu byggt rétt á sáttmálanum, þrátt fyrir að hann hefði ekki verið formlega lögfestur af Alþingi.
Á bekk með vestrænum lýðræðisþjóðum
Í tilefni niðurstöðu Mannréttindadómstólsins sagði íslenskur ráðherra að rétturinn hefði „óeðlileg áhrif á sjálfstæði dómstóla á Íslandi þar sem Hæstiréttur hefur komist að skýrri niðurstöðu um að dómstólarnir séu löglega skipaðir.“ Þau ummæli skutu skökku við þegar fyrir lá að niðurstaða Mannréttindadómstólsins byggði á niðurstöðu Hæstaréttar, þess efnis að galli hefði verið á málsmeðferðinni, og því má velta upp hvort ummæli af þessu tagi rýri ekki traust á dómskerfinu.
Umræðan um Landsréttarmálið virtist líka um margt einkennast af því að íslenskir ráðamenn teldu Mannréttindadómstólinn vega að fullveldi Íslands og meira að segja voru bein ummæli í þessa veru viðhöfð af málsmetandi lögfræðingum
Rétt er að gjalda varhug við þjóðræknislegum viðhorfum í þessu tilliti. Aðild Íslands að Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstólnum, snýst í raun um að íslenskt þjóðfélag skipi sér á bekk með öðrum vestrænum lýðræðisþjóðum sem virða niðurstöður dómstólsins og laga löggjöf og réttarframkvæmd að þeim. Þeir eru öruggasta leiðsögn okkar til að tryggja virka vernd mannréttinda, en án hennar er hætt við að réttarríkið bíði hnekki. Með virkari mannréttindavernd getur þrennt unnist, friðhelgi einstaklingsins verði tryggð, almennt réttaröryggi sömuleiðis og þar með friður í samfélaginu