Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir Hörð Ægisson, ritstjóra Markaðarins ekki nægilega klókan, en hann fór hörðum orðum um hana í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í morgun, þar sem hann gagnrýndi viðbrögð Eflingar við Sáttaryfirlýsingu Icelandair. Nú hefur Sólveig svarað Herði á Facebook-síðu sinni þar sem hún segir að Hörður vilji ekki að hún hafi skoðun á eigin lífeyri.
Sjá einnig: Hörður kallar Sólveigu „skaðvald“ – „Frekleg og ítrekuð afskipti“
„Nú reynir Hörður Ægisson í leiðara Fréttablaðsins að siga Fjármálaeftirlitinu á mig fyrir að dirfast að hafa skoðun á því í hvað minn eigin lífeyrir og félaga minna í stétt láglauna og verkafólks er notaður. Hann er gagnrýnir líka að ég hafi ekki veið tilbúin til að skrifa undir sameiginlega sáttayfirlýsingu Alþýðusambandsins og Icelandair, þar sem ASÍ hvítþvær Icelandair og SA með því að kalla gróf brot Icelandair á vinnulöggjöf þessa lands „brot á samskiptareglum“, í kjölfar þess að forstjóri Icelandair leitaði til ASÍ til að „fá gott veður“ vegna hlutafjárútboðsins.“
Sólveig segir að Hörður sé „ekki alveg nógu klókur“. Hún segir hann ekki skilja að ASÍ hafi verið að beina ákvörðun lífeyrissjóðanna í ákveðna átt. Hún leggur til að Fjármálaeftirlitið fylgist sérstaklega með þeim sem tóku þátt í samningnum, en þar vitnar hún í Hörð sem lagði það sama til, en bara um hana sjálfa.
„Hörður virðist, eins og því miður allt of margir, ekki alveg nógu klókur. Hann virðist ekki skilja að miðstjórn ASÍ tók, með því að skrifa undir yfirlýsinguna, einbeittan þátt í að reyna að hafa áhrif á ákvörðun stjórna lífeyrissjóðanna. Til þess var leikurinn gerður og full vitneskja um það innan miðstjórnar ASÍ. Þannig að réttast væri, ef að Hörður gæti verið samkvæmur sjálfum sér, að hann legði jafnframt til að Fjármálaeftirlitinu yrði sigað á öll þau sem tóku þátt í að samþykkja að skrifað yrði undir hina sameiginlegu yfirlýsingu að morgni þess dags er hlutafjárútboð Icelandair hófst. “
Að lokum segist Sólveig vera stolt af ákvörðun sinni, hún segist standa með henni og eiga fullan rétt á henni. Að hennar mati eiga stéttarfélög að standa vörð um lögin í landinu og heldur því fram að ASÍ hafi fallist frá ákæru án nokkurra málefnalegra ástæðna.
„Ég er stolt af ákvörðun minni um að skrifa ekki undir yfirlýsinguna. Sem formaður annars stærsta verkalýðsfélags Íslands og sem annar varaforseti Alþýðusambands Íslands tel ég það skildu mína að standa vörð um þau lög er gilda í landinu um stéttarfélög og vinnudeilur. Miðstjórn ASÍ tók í sumar upplýsta ákvörðun, eftir að hafa fengið sérstakt minnisblað útbúið af lögmanni ASÍ, um að höfða ætti mál fyrir Félagsdómi gegn Icelandair vegna brota fyrirtækisins á lögum. Engar málefnalegar ástæður voru fyrir því að hætta ætti vð slíka málsókn og ekkert minnisblað var útbúið af lögfræðingum ASÍ um það. Þegar beðið var um „gott veður“ af forstjóra Icelandair var það nóg til að hætt væri við málsókn.
Ég stend með minni ákvörðun. Og ég tel að ég hafi fullan rétt, og það sé í raun mitt hlutverk, að standa vörð um hagsmuni og réttindi minni félagsmanna, hvar og hvenær sem er. Það mun ég gera svo lengi sem ég er formaður Eflingar.“
https://www.facebook.com/solveig.a.jonsdottir/posts/10223664940989096