Athafnamaðurinn Bolli Kristinsson, gjarnan kenndur við verslunina 17, birti í Morgunblaði dagsins í dag auglýsingu yfir heila opnu þar sem hann segir Dag B. Eggertsson „versta borgarstjóra Reykjavíkur frá upphafi,“ og tínir til atriði máli sínu til stuðnings.
Bolli segir að Laugavegurinn sé orðinn sem draugagata vegna lokun gatna og fækkun bílastæða.
Í samtali Bolla við blaðamann DV segir að atriðin 19 sem hann tiltekur hefðu hæglega getað orðið hundrað. Aðspurður afhverju hann velji að birta þessa tilteknu auglýsingu á þessum tímapunkti, þegar aðeins liðlega hálft kjörtímabil er hálfnað, svarar Bolli: „Ég hefði kannski átt að birta hana miklu fyrr. Um alla Reykjavík hefur þessi gríðarlega óánægja safnast upp. Borgarstjórn og borgarstjóri neita ítrekað að hafa nokkuð samráð við fólk um stór eða lítil mál. Þau neita því hreint út, þau hafa ekki viljað tala við okkur á Laugaveginum í fimm ár!“
Bolli vísar til þess að í Reykjavík séu stanslaus átök og uppnám. „Það eru aldrei neinar fréttir um svona uppnám frá öðrum bæjum. Afhverju? Af því að þar eru bæjaryfirvöld að vinna með fólkinu sínu.“ Því er ekki að skipta í Reykjavík segir Bolli. „Í staðinn fyrir að vera þjónar fólksins, þá eru þau alltaf í stríði við fólkið. Það skiptir engu hvort það eru skólamálin, Elliðaárdalurinn, samgöngumálin.“
Bolli hefur ekki legið á skoðunum sínum og gagnrýnt framferði Sjálfstæðisflokksins. Þannig sagði Bolli sig úr Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkrum árum og hefur það ekkert breyst. „Stjórnarandstaðan er grútmáttlaus og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn. Hildur Björnsdóttir og Katrín [Atladóttir] kjósa alltaf með Samfylkingunni og Eyþór bara getur ekki tekið á þessu. Sjálfstæðisflokkurinn ætti að veita miklu meira aðhald, en þau eru bara ekki að gera það.“
Bolli segir ógnarstjórn ríkja í borginni sem verður til þess að fólk þorir ekki að tjá sig. „Það er svo mikið af fólki sem þorir bara ekki að tjá sig. Verktakar og aðrir sem vinna fyrir borgina eru bara hræddir um að fá ekki úthlutað lóðum, fá ekki byggingaleyfi. Í borginni ríkir ógnarstjórn,“ segir Bolli.
Bolli lætur ekki þar við sitja og skammar fjölmiðla í leiðinni. „Þið eruð með Dag B. teflon húðaðan. Þið spyrjið aldrei réttu spurninganna. Hann fær alltaf tækifæri á að röfla sig út úr öllu og aldrei er gengið á hann.“ Bolli tekur umferðarmálin sem dæmi. „Sjáðu bara umferðina í Reykjavík. Það er allt stopp og allir seinir allt sem þau þurfa að fara. Foreldrar seinir að sækja börnin sín í daggæslu, fólk seint á fundi, og alltaf umferðinni kennt um. Allir hundóánægðir, en það á ekki að kenna umferðinni um. Það á að kenna Degi B. Eggertssyni um þetta. Hann ber ábyrgð á þessu.
„Ég spyr: Hvað hefur Dagur B. Eggertsson gert jákvætt fyrir Reykjavík. Það getur enginn svarað þessu. Segjum svo að hann færi í landsmálin, ætlar hann að skemma allt landið líka?“ sagði Bolli að lokum.