Þó upphafleg reiði almennings vegna yfirvofandi brottvísunar egypsku fjölskyldunnar hafi beinst að Áslaugu Örnu dómsmálaráðherra, virðist reiðin nú ekki síst beinast að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
„Áslaug Arna, martröð barna,“ kölluðu mótmælendur á Austurvelli í gær þar sem brottvísun Khedr fjölskyldunnar var mótmælt. Nú, aðeins degi síðar, er Katrín Jakobsdóttir í skotlínunni, og það helst frá flokkssystkinum sínum.
Þannig sagði til dæmis Eiríkur Rögnvaldsson sjá eftir því að hafa lagt nafn sitt við auglýsingu fyrir síðustu kosningar þar sem kallað var eftir því að Katrín yrði forsætisráðherra. Í gær bættist Líf Magneudóttir svo í hóp óánægðra Vinstri grænna og sagði á Facebook að stjórnmálamenn yrðu að axla ábyrgð og breyta lögum um brottvísanir.
Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson sem bauð sig nýverið fram til formanns Ungra Jafnaðarmanna rifjaði upp gamalt efni af Twitter reikningi sínum, með skilaboðunum „be careful what you wish for“:
úffff careful what you wish for https://t.co/L5sVdaIhLR
— 🌏🌹 óskar steinn 🌹🌍 (@oskasteinn) September 15, 2020
DV hefur í kvöld rætt við stjórnmálafólk og skýrendur sem virðast á einu máli að þó Áslaug Arna beri vissulega ábyrgð á málaflokkinum, og að það sé undir henni komið að íhlutast beint í máli fjölskyldunnar, að þá hafi meiri og annars konar kröfur verið gerðar til Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna í þessum málum. Þá segja sumir að burtséð frá skoðunum Áslaugar, komi hún þó til dyranna eins og hún er klædd. Sama sé ekki hægt að segja um Katrínu. Hafa þeir sem þessa línu leggja rifjað upp kosningaauglýsingu Vinstri grænna fyrir síðustu Alþingiskosningar sem Ungliðahreyfing VG birti á sínum samfélagsmiðlum:
Oft er spurt hvort enginn ætli að hugsa um börnin.
Og svarið er jú, krakkar mínir. @katrinjak ætlar að hugsa um börnin. pic.twitter.com/g0aNMoDqyD
— Ung vinstri græn (@ungvinstrigraen) October 25, 2017
Í fréttum í gærkvöldi sagði Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, að málið væri pólitískt erfitt fyrir Áslaugu Örnu og sagði hana taka afstöðu með brottvísun fjölskyldunnar með afskiptaleysi sínu. Það gerði hún til þess að „stöðva blæðingu“ fylgis frá Sjálfstæðisflokknum til íhaldssamari afla í Miðflokknum. Hvernig sem því líður, er óneitanlega pólitískrar velsældar Áslaugar í hag að málinu ljúki sem fyrst og hverfi úr umræðunni. Þannig, og aðeins þannig geti hún vænst að losna úr óþægilegri stöðunni. Það kann því að vera þeim sem bera hug til pólitísks frama Áslaugar viss vonbrigði að fólkið hafi ekki farið um borð í flugvélina í morgun, því ljóst er að málin verður áfram í deiglunni.
Í samtali við blaðamann DV fyrr í kvöld sagði lögmaður fjölskyldunnar að fari svo að héraðsdómur veiti grænt ljós á flýtimeðferð fyrir dómstólum muni máli samt taka mánuð – jafnvel tvo. Heimili rétturinn ekki flýtimeðferð má búast við að málið veltist um í réttarkerfinu í hálft, jafnvel heilt ár. Fari svo að málið hljóti flýtimeðferð og að héraðsdómur felli úr gildi úrskurði Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála er ljóst að brottvísunin verður afturkölluð. Það er besta mögulega niðurstaða fyrir fjölskylduna, og hugsanlega fyrir hlutaðeigandi stjórnmálamenn núna.
Ljóst er að ákallið um inngrip í mál fjölskyldunnar mun ekki hverfa á meðan fjölskyldan er enn hér á landi. Finnist fjölskyldan má vænta annarrar umferðar af mótmælum. Hvort mótmælendur nýti sér aftur „Áslaug Arna, martröð barna“ eða finni sér aðra rímu til að grípa í, er auðvitað ekki ljóst að svo stöddu.