Svona hefst færsla sem Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og kennari, skrifaði á blog.is en Morgunblaðið vakti athygli á færslunni í blaði dagsins. „Ef þessi ímyndaði Íslendingur er öfgamaður og aðhyllist pólitík um guðs ríki á jörðu, þar sem dauðarefsing liggur við að afneita trúnni og helmingur mannkyns, kvenkynið, er settur skör lægra en karlar, tja, þá er um sérstaklega ósvífinn einstakling að ræða ef hann heimtar mannúð og landvist í ríki sem er andstæða við trú hans.“
Páll er með þessu að tala um egypska fjölskylduföðurinn Ibrahim, sem kom hingað til lands ásamt eiginkonu sinni Dooa og fjórum börnum þeirra, þeim Rewidu, Abdalla, Hamza og Mustafa. Þessi egypska fjölskylda vakti athygli nýverið eftir að greint var frá því að þau yrðu send úr landi en Útlendingastofnun synjaði þeim um vernd og sú ákvörðun var síðar staðfest af kærunefnd útlendingamála.
Þess má geta að Páll er talinn vera íhaldssamur og Staksteinar vitna reglulega í skrif hans.
„Egyptinn sem kom hingað með fjölskyldu sína lýsir stoltur yfir því að hann tilheyri Bræðralagi múslima,“ segir Páll. „Samtökin eru viðurkennd öfgasamtök, áhöld eru um hvort þau séu hryðjuverkasamtök. Egyptinn uppfyllir ekki skilyrði til að fá landvist hér á landi. Sé honum veitt landvist bitnar það á öðrum, sem eru verðugri.“
Í Staksteinum Morgunblaðsins er tekið undir orð Páls en gera má ráð fyrir að ritstjóri Morgunblaðsins haldi þar á penna. „Eðlilegt er að fólk hafi samúð með börnum sem ferðast þurfa á milli landa og njóta ekki fyllsta öryggis en eins og Páll bendir á hangir fleira á spýtunni,“ segir í Staksteinum. „Staðreyndin er þó sú að engin fjölskylda og ekkert barn kemur beint frá ófriðarsvæði eða óöruggu landi til Íslands. Þeir sem hingað koma og segjast á flótta koma frá meginlandi Evrópu og reglur kveða á um að þangað eigi þeir að hverfa á ný. Afar mikilvægt er að þeim reglum verði fylgt og að það verði gert mun hraðar en nú er.“
Ástæðan fyrir því að Ibrahim og fjölskylda hans sóttu um vernd hér á landi er sú að Ibrahim talaði opinberlega gegn stefnu yfirvalda þar í landi. „Þegar við fórum til Óman frá Egyptalandi varð hann einnig fyrir ofsóknum þar og við vildum fara annað þar sem við yrðum örugg og mannréttindi eru virt,“ sagði Doaa, eiginkona Ibrahim, í samtali við Vísi fyrr á árinu. „Hann yrði handtekinn og kannski drepinn. Ef eitthvað gerist fyrir hann væri það hræðilegt fyrir fjölskylduna.“
Doaa er menntaður hjúkrunarfræðingur og þegar hún var í Egyptalandi og í Óman vann hún á heilbrigðisstofnunum. Hana dreymir um að geta starfað sem hjúkrunarfræðingur hér á Íslandi. Þá er Ibrahim er verkfræðimenntaður, hin 12 ára Rewida langar að verða náttúrufræðikennari og Abdalla, sem er 9 ára gamall, langar að verða flugmaður.