fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Eyjan

Útskýrt á mannamáli: Hlutafjárútboð Icelandair

Heimir Hannesson
Laugardaginn 12. september 2020 14:00

mynd/Ernir Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framtíð Icelandair er undir í komandi hlutafjárútboði. Vegna þessa hefur ríkið brugðist við og komið að borðinu. DV útskýrir hér Icelandair-málið á mannamáli.

Þann 7. febrúar á þessu ári sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í viðtali við Morgunblaðið að Icelandair ætlaði sér að skila hagnaði á árinu 2020 eftir mikinn taprekstur árin á undan. Nú berst fyrirtækið í bökkum og af orðum Boga að dæma nú, hálfu áru síðar, er framtíð fyrirtækisins undir í komandi hlutafjárútboði. Ofan á það hafa ríkisbankarnir og ríkið sjálft slengt fram 16 milljarða lánalínu með ríkisábyrgð. Til stendur að selja hluti í fyrirtækinu á genginu 1.

En hvað þýðir þetta?

Vandræði Icelandair hófust með kórónaveirufaraldrinum. Þegar landamæri heims lokuðust hurfu tekjur flugfélagsins. Við tók langt ferli að skrúfa fyrir útgjöld félagsins og fjármagna komandi taprekstur.

Uppsagnir og samningar við birgja og lánardrottna

Ljóst var að tvennt þyrfti að koma til. Í fyrsta lagi þurfti Icelandair að skera útgjöld niður eins mikið og hægt var. Í öðru lagi varð fljótlega ljóst að flugfélagið þurfti að stórbæta lausafjárstöðu sína til þess að standa undir yfirvofandi taprekstri.

Fyrst sagði flugfélagið upp 240 manns í lok mars. Stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar fylgdi svo í lok apríl þegar rúmlega 2.000 voru reknir. Þá hafði ríkið lofað að niðurgreiða uppsagnarfresti  starfsmannanna.

Fjárhagsstöðu sína hyggst Icelandair svo bæta með hlutafjárútboði. Hlutafjárútboð er þegar nýir hlutir eru búnir til í félaginu og boðnir til sölu. Þannig eykst fjármagn félagsins og nýir aðilar bætast í eigendahópinn. Fyrirtækið sjálft stækkar þó ekkert. Hér má ímynda sér köku sem er skorin í fjórar sneiðar og hver sneið er eign eins eiganda. Svo þegar þörfin knýr á er hver sneið skorin í tvennt og helmingur hverrar sneiðar seldur öðrum manni. Nú eru sneiðarnar átta. Kakan hefur ekkert stækkað heldur eru nýir eigendur komnir inn á kostnað hlutar fyrri eigenda. Þetta er gert til þess að auka fjármagn sem fyrirtækið hefur úr að spila.

Hlutafé Icelandair er í dag tæplega 6 milljarðar og ganga hlutir kaupum og sölu rétt yfir genginu 1. Gert er ráð fyrir að afla 20 milljarða króna í hlutafjárútboðinu sem fram undan er. Þannig má gera ráð fyrir því að hlutafé Icelandair verði 26 milljarðar í kjölfar útboðsins. Þeir sem áður áttu milljarðana sex verða því 6/26 eigendur félagsins eftir útboðið. Hlutur þeirra þynnist sem því nemur. Fyrir liggur því að nýir fjárfestar verða meirihlutaeigendur í flugfélaginu.

„Díllinn“ sykurhjúpaður

En hver vill setja pening í fyrirtæki hvers yfirlýsta stefna er að safna peningum til að fjármagna fyrirséðan taprekstur? Ekki margir. Til þess að lokka fjárfesta að borðinu hefur Icelandair þurft að ráðast í ýmsar aðgerðir. Félagið hefur þurft að semja við Boeing vegna kaupa á MAX 737-vélunum frægu, semja við stéttarfélög flugstéttanna þriggja, flugmanna, flugfreyja og flugvirkja, semja við lánardrottna sína, færsluhirði o.s.frv.

Þó að 20 milljarðar hljómi eins og svimandi há upphæð, þá er hún ekki stór í samhengi stórs alþjóðlegs flugfélags. Því kann það að fara svo að Icelandair þurfi enn frekari fjármögnun og hafa ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbankinn, stigið þar inn. Hafa þeir lofað Icelandair 16 milljarða lánalínu. Nokkurs konar yfirdrætti á kostakjörum.

Til að tryggja að hugsanlegir fjárfestar bíti á agnið hefur svo ríkið veitt ríkisábyrgð fyrir 90% af þessu láni. Greiði flugfélagið ekki bönkunum lánið til baka, mun ríkið gera það. Þetta gerir bönkunum kleift að lána Icelandair þessa 16 milljarða á miklu betri vaxtakjörum en ella væri mögulegt, eða 3%.

Aðkoma ríkisins mörgum skilyrðum háð

Aðkoma ríkisins er flugfélaginu ekki ókeypis. Ríkið hefur sett ýmis skilyrði fyrir aðkomu sinni að fjármögnuninni. Meðal annars setti ríkið það sem skilyrði að útboðið færi fram á genginu 1. Sagt hefur verið frá því að Icelandair hugðist bjóða gengi nær 1,5. Lægra gengi í hlutafjárútboðinu þýðir í raun að kökusneið fyrri eigenda er skorin í enn fleiri sneiðar og hlutur fyrri eigenda þynnist meira út við útboðið. Á móti fá svo væntanlegir kaupendur hlutabréfa í Icelandair meira fyrir sinn snúð.

Þá hefur ríkið einnig sett það sem skilyrði að Icelandair reyni til fulls að fjármagna sig með eðlilegum hætti á markaði áður en það gangi á ríkistryggðar lánalínur. Enn fremur má ekki nota þetta lánsfé í neitt annað en að borga rekstrarkostnað félagsins og fari svo að gengið verði á ríkistryggt lánsfé mega stjórnendur Icelandair ekki greiða út arð til hluthafa í tvö ár.

Enn fremur hefur þátttakendum í hlutafjárútboði, þ.e.a.s. kaupendum nýju kökusneiðanna, verið tryggð 25% áskriftarréttindi á 15% ársvöxtum næstu tvö ár. Það þýðir að kaupi einstaklingur fyrir milljón í félaginu í upphaflegu hlutafjárútboði, má hann kaupa enn meira, eða fyrir 250.000 á genginu 1,15 eftir ár.

Af hverju er það gott fyrir væntanlega kaupendur? Vegna þess að um er að ræða kauprétt sem þarf ekki að ganga að. Þannig er verið að festa kaupverð á hlutabréfum í fyrirtæki heil tvö ár fram í tímann. Ef fyrirtækinu vegnar vel og hlutabréf þess ganga kaupum og sölum á til dæmis genginu tveimur að ári liðnu, eru það mikil kostakjör að fá að kaupa hlut í félaginu á 1,15. Ef svo fer að félaginu vegnar illa og hlutir félagsins eru enn á genginu 1 eða þar um bil geta áskriftarhafar einfaldlega sleppt því að kaupa hlutina.

Risastór viðburður á íslenskan mælikvarða

20 milljarðar eru gríðarlega stór biti að kyngja fyrir flesta innlenda aðila og það því ljóst frá upphafi að hlutafjárútboðið yrði ómögulegt án aðkomu lífeyrissjóðanna.

Eigendur Icelandair eru í dag að mjög stórum hluta, einmitt lífeyrissjóðirnir. Hér kunna þá einhverjir að spyrja af hverju lífeyrissjóðir eru að taka þátt í hlutafjárútboði sem mun þynna út hlut þeirra í fyrirtækinu. Komum við þá aftur að orðum Boga Nils Bogasonar, forstjóra félagsins. Ef hlutafjárútboðið nær ekki markmiði sínu er óljóst hvort fyrirtækið verði rekstrarhæft í kjölfarið. Það kann því að vera hagur núverandi eigenda að verja hlut sinn með frekari fjárfestingu þótt það þýði að fyrri hlutur rýrni verulega.

Nýlega var svo tilkynnt að bankarnir hafi sölutryggt hlutafjárútboðið. Það þýðir að bankarnir eru nú skuldbundnir til að kaupa í Icelandair fyrir allt að 3 milljarða hvor í hlutafjárútboðinu, fari svo að  Icelandair nái a.m.k. 14 milljörðum áður. Þannig er það tryggt að 20 milljarða markinu verði náð, jafnvel
þó aðeins takist að selja fyrir 14 milljarða. Með þessu var talsverðum þrýsting létt af Icelandair í aðdraganda útboðsins. Sjálft útboðið mun fara fram, eins og áætlanir standa í dag, um miðjan septembermánuð.

Þessi frétt birtist fyrst í blaði DV síðustu helgi. Fyrir upplýsingar um áskrift má senda tölvupóst á askrift@dv.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lenya Rún snýr vörn í sókn eftir viðtalið við Stefán Einar – „Já ég skeit upp á fokking bak en ég er ógeðslega góð í að læra“

Lenya Rún snýr vörn í sókn eftir viðtalið við Stefán Einar – „Já ég skeit upp á fokking bak en ég er ógeðslega góð í að læra“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Mér finnst mjög skrítið að hægt sé að komast upp með annan eins munnsöfnuð“

„Mér finnst mjög skrítið að hægt sé að komast upp með annan eins munnsöfnuð“