Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur fengið þetta staðfest hjá Fjármálaeftirliti Seðlabankans. Fram kemur að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að áskriftarréttindin, sem verða boðin með hlutabréfum félagsins í útboðinu, teljist vera flókinn fjármálagerningur.
Þessi áskriftarréttindi, sem bera 15% vexti á ársgrundvelli, gera þátttakendum í útboðinu mögulegt að kaupa nýja hluti í framtíðinni á sama gengi og í útboðinu í næstu viku.
Þau lagaákvæði sem Fjármálaeftirlitið vísar í banna ekki almennum fjárfestum að stunda flókna fjármálagerninga en leggja þær skyldur á fjármálafyrirtækin, sem eru söluaðilar, að meta hvort fjárfesting í útboðinu sé viðeigandi fyrir þá sem taka þátt í því. Þetta nefnist tilhlýðileikamat.
Fagfjárfestar þurfa ekki að fara í slíkt mat en fjármálafyrirtæki meta hvort almennir fjárfestar búi yfir nægri reynslu og þekkingu á áskriftarréttindum. Ef fjármálafyrirtækið telur að fjárfestingin sé ekki viðeigandi fyrir viðkomandi skal það ráða honum frá viðskiptunum segir í svari Fjármálaeftirlitsins til Fréttablaðsins. Ef að niðurstaðan er sú að fjármálafyrirtækið ráðleggur viðkomandi að taka ekki þátt jafngildir það ekki banni og viðkomandi getur tekið þátt.