Fréttablaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Ásgeiri að hann eigi ekki endilega von á miklum áhrifum á gengið þótt lífeyrissjóðirnir verði ekki lengur bundnir af samkomulagi um að standa ekki að gjaldeyriskaupum vegna erlendra fjárfestinga.
Hann telur einnig að ferðaþjónustan muni ná sér hratt á strik þegar dregið verður úr sóttvarnarráðstöfunum. Hér sé því um tímabundið ástand að ræða og óskynsamlegt fyrir langtímafjárfesta, eins og lífeyrissjóði, að standa í miklum gjaldeyriskaupum þegar gengið er í tímabundinn lægð.
Samningur Seðlabankans við lífeyrissjóðina, um að þeir keyptu ekki gjaldeyri, rennur út í næstu viku og eins og Markaður Fréttablaðsins skýrði frá í gær er enginn vilji meðal sjóðanna til að halda áfram að sér höndum varðandi erlendar fjárfestingar.
Seðlabankinn tilkynnti, eftir lokun markaða í gær, að hann sé reiðubúinn til að selja allt að 240 milljónir evra, sem jafngilda 40 milljörðum króna, af gjaldeyrisforða sínum til ársloka. Markmiðið með þessu er að auka dýpt og stöðugleika á gjaldeyrismarkaðnum.