Alexandra Briem, trans kona og varaborgarfulltrúi Pírata hefur tjáð sig um Jesúmyndina sem hefur verið á allra vörum um helgina. Á föstudag birtist mynd á Facebook-síðu Kirkjunnar, þar sem var að finna Jesú-fígúru með brjóst.
Myndin vakti upp misjöfn viðbrögð, sumir sögðust ætla að skrá sig úr þjóðkirkjunni, öðrum fannst flott að kirkjan skyldi fagna fjölbreytileikanum, enn öðrum fannst kirkjan vera bendla sig við boðskap sem hún stæði ekki fyrir.
Nú hefur Alexandra tjáð sig um málið, en sýn hennar er að talsverðu leiti ólík þeim sem heyrðust í gær. Á Facebook-síðu sinni tjáir Alexandra sig um málið, en hún segir að skoðun sín sé eflaust óvænt og óvinsæl.
„Ok, óvinsæl og kannski óvænt skoðun dagsins. EF (og það er kannski stórt ef) Jesús var raunverulega til sem söguleg manneskja, þá var hann eitthvað ákveðið. Hann var þá manneskja sem, burt séð frá því hlutverki sem hann fékk sem átrúnaðargoð, hafði þá sína eigin kynhneigð og kynvitund og sinn eigin persónuleika, og það er amk.ekkert sem ég hef heyrt sem gefur til kynna að hann hafi litið á sig sem annað en karlmann.“
Alexandra segist virða það þegar að „mascot“ eða lukkudýra-karakterum sé breytt til að kynna ný viðhorf. Henni finnist þó sérstakt þegar að kyni eða kynvitund einstaklings sé breytt þegar ekkert bendi til þess að það endurspegli raunveruleikann.
„Þó ég virði það viðlit að breyta mascot characternum sínum (á hátt sem minnir á Buddy Jesus úr myndinni Dogma) til að senda skilaboð um breytt viðhorf kirkjunnar og meiri móttækileika, þá finnst mér það eitthvað skrítið að breyta kyni og kynvitund manneskju sem hefur ekkert um það að segja sjálf. Ekkert í sjálfu sér skárra en ef Jesús hefði verið trans maður og einhver hefði ákveðið að tala um hann sem konu.“
https://www.facebook.com/AlexBriem/posts/10157993958804006