Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, gagnrýnir Samtök avinnulífsins harðlega í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hún segir að samtökin vilji nota „gömul lyf“ til að vinna gegn efnahagslegum áhrifum COVID-19.
„Á dögunum var sagt frá því í fréttum að „gömul lyf“ hefðu reynst vel í meðferð við Covid-19. Ekki er ólíklegt að Samtök atvinnulífsins hafi fundið sinn innblástur í þeim tíðindum þegar þau settu saman umsögn sína um breytingar á fjármálastefnu stjórnvalda. Umsögnin er uppfull af gömlum úrræðum en ekki raunhæfum hugmyndum til að takast á við viðfangsefni samtímans. Vandinn er sá að ekkert bendir til þess að gömul lyf virki gegn efnahagslegum afleiðingum Covid, jafnvel þótt þau nái að vinna gegn heilsufarslegum einkennum sjúkdómsins á meðan beðið er eftir bóluefni.“
Halla ræðir hugmyndir Samtaka atvinnulífsins er varða skattalækkanir til fjármagnseigenda og fyrirtækja. Hún segir að þau reyni að „nýta“ kreppuna til að sníða samfélagið að sinni hugmyndafræðilegu línu.
„Meðal þess sem SA leggur nú fram í opinberri umræðu er að Covid-kreppan kalli á skattalækkanir til fjármagnseigenda og fyrirtækja, að nú sé rétti tíminn til að saxa niður hið opinbera (sem á nýmáli er kallað „tiltekt í opinberum rekstri“) og að hærri atvinnuleysistryggingar verði aðeins til þess að fólk nenni ekki að vinna. Með öðrum orðum þá vill SA „nýta“ kreppuna til að hanna samfélagið eftir þröngri hugmyndafræðilegri línu.“
Hún vill meina að umrædd hugmyndafræði samtakanna sé skaðleg og full af mótsögnum. Halla segir að þau ríki sem hafa skorið mest niður hjá hinu opinbera séu þau ríki sem hafi farið verst út úr COVID-19.
„Hugmyndafræðin sem SA vill styrkja í sessi er ekki aðeins full af mótsögnum heldur hefur hún valdið ómældum skaða á hagkerfum og samfélögum um allan heim. Þannig að álitamál er hvort þessi lyf hafi nokkurn tímann virkað. Þau ríki sem fylgdu þeirri línu í kjölfar fjármálahrunsins að skera stórlega niður við hið opinbera, ívilna fjármagnseigendum og veikja öryggisnet samfélagsins eru þau ríki sem koma hvað verst út úr Covid, bæði heilsufarslega og efnahagslega. Þær alþjóðastofnanir sem hafa fremur þjónað fjármagni en fólki eru í hrönnum að snúa frá þessari línu. Nú hvetur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til ríkisútgjalda í þágu velferðar og þess að verja afkomu fólks. OECD talar í sömu átt og meira að segja hin árlega samkoma hinna ríku og vel megandi í Davos er farin að kalla eftir aðgerðum gegn ójöfnuði.“
Að lokum segir Halla að þrátt fyrir stefnubreytingar á alþjóðavettvangi, sem byggist á rannsóknum og reynslu, þá séu Samtök atvinnulífsins ekki að baki dottinn og haldi sínu áfram. Hún segir að ákvarðanir sem teknar verða næstu misseri verði gríðarlega mikilvægar fyrir næstu ár og áratugi.
„En einhvern veginn virðist þessi stefnubreyting á alþjóðavettvangi ekki eiga upp á pallborðið hjá SA, þrátt fyrir að vera studd bæði rannsóknum og reynslu. Þvert á móti hefur SA forherst í gömlu lyfjaræðunni, sem vinnur bæði gegn almannahag og þörfum stórs hluta atvinnulífsins.
Þær ákvarðanir sem nú eru teknar í ríkisfjármálum munu hafa mikil áhrif til framtíðar. Samfélagsskipulag næstu ára og jafnvel áratuga mun ráðast af þeim ákvörðunum. Hlutverk stjórnvalda á að vera að gæta almannahagsmuna á slíkum tímum sem á öllum tímum. Ætli ríkisstjórnin að standa sig í því hlutverki væri ráð að lækka í heyrnartækinu þegar SA hefur upp raust sína en hækka í því þegar samtök launafólks og almannasamtök koma sínum sjónarmiðum á framfæri.“