Afa mínum, Agli Skallagrímssyni, leiddist í ellinni. Hann saknaði ferðalaga á framandi slóðir, gleðskapar og slagsmála. Egil langaði mest til þess að ríða á Alþing og kasta silfurpeningum yfir þingheim til að sjá menn rífast og slást. Ekkert varð úr þeirri ráðagerð.
Kóvíð hefur nú varað í hálft ár og gjörbreytt samfélaginu. Fólk ferðast ekki lengur til útlanda. Brúðkaupum og fermingum er frestað. Jarðarfarir fara fram í kyrrþey. Leikhús eru lokuð. Engir ferðamenn koma til landsins. Stjórnvöld halda áfram að takmarka lífsgæði fólks. Öllum leiðist. Enginn hefur dáið úr kóvíð í seinni bylgjunni, en fjöldi fólks er að deyja úr leiðindum.
Sjónvarpsstöðvarnar létta engum lundina. Flestallar fréttir eru kóvíðtengdar. Sömu spekingarnir endurtaka sömu heimsendaspárnar. Neikvæðnin er í öndvegi. Önnur dagskrá er til þess eins fallin að auka þunglyndi. Heimsóknarbann á elli- og hjúkrunarheimili drepur fleiri úr einmanaleika en pestin sjálf. Aukin samvera hjóna á heimilunum leiðir til vaxandi ofbeldis og fjölgunar skilnaða. Drykkja eykst.
Margir fara hamförum á netinu. Ekki-fréttir verða að stórmálum. Stóra þyrlumálið og vinkvennafundur ráðherrans eru dæmi um uppblásna fréttleysu. Netið fer á hliðina þar sem fólk fær útrás fyrir öll sín leiðindi. Hneykslaðir borgarar kalla eftir afsögn ráðherra fyrir að láta æskugleði og fljótfærni leiða sig út úr excelskjali pólitískrar rétthugsunar.
Egill afi dó á endanum úr leiðindum enda hafði hann ekki aðgang að netmiðlum. Á netinu hefði hann getað gamnað sér við blóðug átök, skítkast, svívirðingar og mannorðsmorð í beinni. Þetta hefði létt gamla manninum lundina í ellinni.