Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, var afar óánægður með gagnrýni Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kreppunni sem kórónuveirufaraldurinn hefur valdið. Tókust þau helst á um aðgerðir gegn atvinnuleysi í snörpum umræðum þriggja þingmanna í Kastljósi í kvöld.
Helga Vala lýsti meðal annars óánægju sinni yfir því að hlutabótaleiðin hefði verið framlengd um aðeins tvo mánuði, sem hún taldi vera naumt skammtað og valda óöryggi. Á meðan væru önnur lönd að boða slíkar aðgerðir til 12 eða 13 mánaða.
Kolbeinn sakaði Helgu um að tefla fram pólitískum frösum: „Mér finnst eins og fólk hafi ekki séð fréttir í dag – eða hvað? Við erum að tilkynna um það í dag að við setjum marga milljarða akkúrat til atvinnulausra. Annars vegar erum við að lengja tekjutengda tímabilið og hins vegar erum við að opna á þann möguleika að atvinnulausir geti farið í nám. Þannig að þetta er ekkert sem við erum að gera eftir einhverja ímyndaða 12 mánuði þó að það henti pólitískt að vera með svona frasa. Þetta er það sem við erum að gera núna!“
Helga Vala ítrekaði gagnrýni sína á að hlutabótaleiðin væri ekki framlengd til lengri tíma en tveggja mánaða. Hún viðraði einnig gagnrýni á það að aðhaldskrafa væri á heilbrigðiskerfið sem hefði verið undir miklu álagi og verið samfélaginu afar mikilvægt í faraldrinum, þar þyrfti að leggja vel í.
Kolbeinn sagði að honum virtist mikið kosningahljóð vera komið í félaga sína í stjórnarandstöðunni þegar þeirri spurningu var varpað fram hvort samstaða næðist á þingi á komandi vetri sem fyrirsjáanlegt er að verði afar erfiður.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tók einnig þátt í umræðunum. Hann lagði áherslu á aðgerðir sem myndu hjálpa atvinnulífinu, til dæmis lækkun tryggingargjalds. Leiðin út úr kreppunni væri sú að fyrirtækjum væri gert kleift að fjölga störfum. Bergþór lagði einnig áhersla á að hagkvæmn í ríkisrekstri og að minnka báknið.
Kolbeinn sagði að Miðflokkurinn þyrfti að skipta um plötu og spurði hvort Bergþór gerði sér ekki grein fyrir því að komin væri kreppa. Slagorð um að minnka báknið ættu ekki við núna. Lýsti Kolbeinn yfir ánægju sinni með það að farin væri vinstri leið til að takast á við kreppunni, ekki væri skorið niður heldur valin sú leið að vaxa út úr kreppunni. Sú fjármálastefna sem ríkisstjórnin hafi lagt fram þar sem erlendar skuldir eru auknar tímabundið og gert er ráð fyrir miklum halla á ríkissjóði væru rétta leiðin út úr kreppunni. Ríkissjóður tæki á sig höggið en það lenti ekki á íbúum landsins. „Við vinstra fólk hljótum að fagna því að við höfum náð samstöðu um að fara þessa leið.“
Helga Vala sagði að Samfylkingin legði höfuðáherslu á að auka atvinnu í landinu og hún sagðist sakna þess mest í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til og boðar, að ekki væri verið að skapa störf.