Mjög er kallað eftir hækkun atvinnuleysisbóta vegna hækkandi atvinnuleysis undanfarið og fyrirsjáanlegs langtímatvinnuleysis vegna þeirra takmarkana á ferðafrelsi og athafnafrelsi sem kórónuveirufaraldurinn hefur í för með sér. Skammt er síðan Drífa Snædal, formaður ASÍ, skoraði á stjórnvöld að hækka atvinnuleysisbætur, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, tekur í sama streng í grein í Fréttablaðinu í dag.
En raddir sem tala gegn hærri atvinnuleysisbótum heyrast einnig og vekja athygli. Ummæli Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, forstöðumanns Efnhagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í þessa veru í síðustu viku vöktu athygli og snörp skoðanaskipti.
Þorsteinn Friðrik Halldórsson, viðskiptablaðamaður á Markaðnum, tekur undir sjónarmið Önnu Hrefnu, í skoðanapistli í dag. Segir hann að í raun séu hærri atvinnuleysisbætur fátæktargildra enda letji þær fólk til sjálfbjargarviðleitni:
„Atvinnuleysisbætur á Íslandi eru nú þegar háar eins og rakið var af Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, forstöðumanni efnahagssviðs SA, í síðasta tölublaði Markaðarins. Hún benti á að ef horft væri til tekjulægri einstaklinga væri munurinn á tekjum fyrir og eftir atvinnumissi einn sá minnsti hér á landi borið saman við önnur OECD-ríki. Það gildir hvort sem horft er til tveggja mánaða eftir atvinnumissi eða tveggja ára.
Það að halda fólki sem missir vinnuna í fátæktargildru er ómannúðlegt. Drífa Snædal, forseti ASÍ komst svo að orði í nýjasta pistli sínum og óhætt er að taka undir þetta sjónarmið. Kerfi sem kemur í veg fyrir að fólk brjótist úr fátækt til bjargálna er samfélagslegt mein. Það á sérstaklega við á tímum langvarandi atvinnuleysis sem getur haft djúpstæð félagsleg áhrif. Misskipting eykst og geðheilsa versnar.
Einmitt þess vegna skjóta tillögur um hækkun bóta og verulega útvíkkun bótaréttar skökku við. Þær eru til þess fallnar að hafa letjandi áhrif á atvinnuleitandi fólk með því að hækka fórnarkostnaðinn við að koma aftur inn á vinnumarkaðinn. Öfugsnúnir hvatar búa til fátæktargildruna sem Drífa varar við. Ef hún fær sínu framgengt – og það er gæfa þjóðarinnar að svo verði ekki – mun hagkerfið festast í viðjum atvinnuleysis.“
Þorsteinn notar í raun sömu forsendur til að mæla gegn hærri atvinnnuleysisbótum og þeir nota sem mæla með hækkun þeirra: Framundan sé harður vetur í efnahagsmálum og starfsemi margra fyrirtækja sé að stöðvast. „Það væri algjört glapræði að veikja viðnámsþrótt hagkerfisins þegar mest liggur við,“ segir Þorsteinn.