fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Eyjan

Brynjar hjólar í prest: „Séra Örn Bárður er heppinn að ég er ekki Biskupinn yfir Íslandi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 17. ágúst 2020 08:00

Samsett mynd DV. Mynd af Erni Bárði: Fréttablaðið/Pjetur Sigurðsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Deilur um Samherja taka á sig ýmsar myndir þessa dagana og Brynjar Níelsson varpaði upp nokkuð nýstárlegri mynd í pistli á sunnudag. Fer Brynjar þar hörðum orðum um Örn Bárð Jónsson vegna, að sögn Brynjars, nýlegrar predikunar hans, þar sem hann er sagður þjófkenna menn í tengslum við kvótakerfið.

„…menn í þessari stöðu geta ekki leyft sér að kalla aðra þjófa. Hugtakið þjófnaður hefur nefnilega merkingu og vísar til saknæmrar og refsiverðrar háttsemi,“ segir Brynjar í sínum harðorða pistli. Hann hefur þó hvorki hlýtt á predikun Arnar né lesið hana en vísar til nýlegra frétta af henni. Við nokkra athugun kemur í ljós að Brynjar er hér að vísa til fréttar á vef Hringbrautar frá 21. maí í vor, um predikun sem Örn Bárður flutti þann sama dag í Breiðholtskirkju. Tilefnið voru fréttir um eigendaskipti Samherja þar sem börn stofnenda þess erfðu stóran hluta fyrirtækisins.

„Örn Bárður Jónsson, fyrrverandi prestur í Neskirkju, fór ekki mjúkum orðum um „þjófþingið“ eins og hann kaus að kalla þjóðþingið í predikun sinni í Breiðholtskirkju í morgun. Í messunni gagnrýndi hann stjórnvöld fyrir að láta gjafakvótakerfið viðgangast og furðaði sig á nýlegum eigandaskiptum Samherja, þar sem börn stofnenda erfðu stóran hluta fyrirtækisins, “ segir í fréttinni og síðan er vitnað til orða Arnar:

„Nýjasta dæmið er svonefndur fyrirframgreiddur arfur útgerðarmanna nokkurra sem líta á sig sem eigendur sem alls þess sem hjá þeim er bókfært og ætla að arfleiða börnin sín að eign þjóðarinnar sem hefur slæðst inn í bókhaldið, syndandi fiskinn í sjónum.“

„Það að Alþingi skuli ekki hafa stöðvað þessa ósvinnu og látið óréttinn viðgangast, framsalið og eignfærsluna í bókhaldinu um árabil, gerir það að verkum að þjóðþingið stendur vart undir nafni sem slíkt,“ sagði Örn Bárður enn fremur en líklega eru það þessi ummæli sem fara mest fyrir brjóstið á Brynjari:

„Ég hef áður sagt að ég freistist til að skipta út bókstafnum ð úr orðinu þjóðþing og setja f í staðinn fyrir ð.“

Segir Örn Bárð enga þekkingu hafa á kvótakerfinu

Brynjar segist í sjálfu sér ekki setja út á þó að prestar tjái sig um þjóðfélagsmál í predikunarstóli en hann telur þekkingu Arnar á kvótakerfinu vera nálægt núllpunktinum:

„Mér finnst stundum gott að fara í kirkju og hlusta á kærleiksboðskap Krists og fallega sálma. Prestum tekst misvel upp með predikanir, eins og gengur. Stundum fjalla þeir um pólitísk álitamál í samfélaginu, sem er alveg sársaukalaust af minni hálfu. Geri samt þá kröfu að þeir hafi kynnt sér málin sæmilega áður en þeir þruma yfir söfnuðinn. Það gerist greinilega ekki alltaf ef marka má nýlegar fréttir af predikun séra Arnar Bárðar Jónsonar, sem ég tel að vísu hinn mætasta mann. Af fréttinni að dæma missir séra Örn Bárður kúlið, eins og unglingarnir segja, og vænir mann og annan um þjófnað á fiskveiðiauðlindinni af almenningi og til að bæta gráu ofan á svart fái makar og börn útgerðarmanna þýfið í arf. Látum nú vera að stjórnmálamenn tali svona í sinni eilífu sýndarmennsku en það er afleitt að góði hirðirinn tali með þessum hætti.

Mig grunar að séra Örn Bárður hafi mjög takmarkaða þekkingu á lögum og reglum um stjórn fiskveiða eða þróun þeirra og enn minni þekkingu á erfðarétti. Eg ætla því að leyfa mér, með hæfilegum hroka, að upplýsa hann um nokkur grunnatriði. Þær fær hann alveg ókeypis og má arfleiða þær hverjum sem hann vill.“

Brynjar fer síðan yfir sögu kvótakerfisins og bendir Erni Bárði á að þeir sem stundi útgerð í dag hafi annaðhvort  fengið úthlutað kvóta á grundvelli aflareynslu sem varð til fyrir árið 1983 þegar kvótakerfið var sett á, eða hafi keypt kvótann eftir að framsal kvóta var gert löglegt árið 1991:

„Þegar aflamarkskerfinu var komið á 1983, sem í daglegu tali er kallað kvótakerfið, fengu útgerðir úthlutað kvóta á skip eftir veiðireynslu áranna á undan. Þessi aðferð byggist auðvitað á málefnalegum sjónarmiðum auk þess var hún að ráði færustu stjórnlagafræðinga, sem vísuðu í stjórnarskrána máli sínu til stuðnings. Þegar heimild til framsals aflaheimilda kom á árinu 1991 byggðist hún á hagrænum sjónarmiðum. Offjárfestingar og óhagkvæmni gerði greininni erfitt fyrir og hún var ekki samkeppnishæf, sem kallaði á endalausar gengisfellingar með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir almenning. Allar þessir aðgerðir stjórnmálamanna eða „þjófanna“ eins og séra Örn Bárður kallar þá gerðu það að verkum að í landinu er sjálfbær sjávarútvegur sem hefur verið undirstaðan að mestu velferð sem Íslendingar hafa nokkru sinni upplifað.

Þeir sem stunda útgerð í dag fengu því annað hvort úthlutað aflaheimildum á grundvelli veiðireynslu fyrir árið 1983 eða hafa keypt veiðiheimildir á grundvelli laga og reglna eftir 1991. Rekstur útgerða er alla jafna í hlutafélagaformi, þar sem hlutir ganga kaupum og sölum. Sum eru og hafa verið almenningshlutafélög og væru það sjálfsagt öll ef almenningur og fjárfestar væru tilbúnir að taka þá áættu sem fylgir útgerð. Um hluti í félögum gilda sömu reglur og um aðrar eignir, þær ganga kaupum og sölum og erfast.“

Ef Brynjar væri biskup

„Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga að séra Örn Bárður eða aðrir hafi þá skoðun að fiskveiðikerfið eigi að vera öðruvísi, hvort sem það eru frjálsar veiðar allra, bann við framsali, eða innköllun aflaheimilda og uppboðsleið, sem er að vísu ótæk. En menn í þessari stöðu geta ekki leyft sér að kalla aðra þjófa. Hugtakið þjófnaður hefur nefnilega merkingu og vísar til saknæmrar og refsiverðrar háttsemi,“ segir Brynjar.

Í lok pistilsins gefur hann síðan í skyn að Örn Bárður ætti ekki von á góðu ef Brynjar Níelsson væri biskupinn yfir Íslandi. Virðast þau orð þó sögð í gamansemi:

„Séra Örn Bárður er heppinn að ég er ekki Biskupinn yfir Íslandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur