Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, gefur lítið fyrir gagnrýni á YouTube-myndband um Seðlabankamálið sem Samherji birti í gær þar sem vegið var að heilindum fréttamannsins Helga Seljan og vinnubrögðum RÚV.
Hjóla í vinnubrögðin ekki manninn
Í þættinum Reykjavík síðdegis í gær sagði Þorsteinn að það væri af og frá að Samherji væri að hjóla í nokkurn mann, þeir væru einfaldlega að benda á ámælaverð vinnubrögð stærsta fjölmiðil landsins, RÚV. Undanfarin sólarhring hefur mikið mætt á Samherja fyrir að hjóla sérstaklega í Helga Seljan og reyna að hafa af honum mannorðið.
„Við teljum okkur vera að upplýsa um vinnubrögð starfsmanns RÚV. Við teljum okkur ekki að fara í manninn. Við erum að fara í þessi vinnubrögð til að lýsa því hvernig við vorum ranglega ásökuð sem leiddi til gríðarlegs tjóns fyrir fyrirtækið og starfsmenn. Við erum að lýsa þarna vinnubrögðum.“
RÚV engin lítilmagni
Þorsteinn bendir á að rannsókn á fyrirtækinu hafi ekki leitt neitt saknæmt í ljós en hins vegar hafi rannsóknin valdið umtalsverðum skaða. Bæði fyrir fyrirtækið sjálft sem og starfsmenn þess.
Furðar hann sig á yfirlýsingu RÚV og starfsmanna þar sem Samherja sé lýst sem einhvers konar stórfyrirtæki sem sé að ráðast að mun aumari aðila. Finnst Þorsteini það gleymast að RÚV sé mjög stórt fyrirtæki líka, stærsti fjölmiðill landsins, en ekki einhver lítilmagni.
„Ég ætla bara að benda á það að það er búið að rannsaka Samherja hægri og vinstri og ég ætla bara að benda á niðurstöðu sérstaks saksóknara. Þó það sé erfitt fyrir marga að kyngja því þá segir niðurstaða sérstaks saksóknara á þeim tíma að Samherji og starfsfólk hans hafi skilað gjaldeyri af mikilli kostgæfni og skilað gjaldeyri umfram skilaskyldu. Það er niðurstaða málsins og það eiga menn að sætta sig við.
Tilbúinn að birta leyniupptökuna í heild
Segir Þorsteinn það vel koma til greina að birta samræður fyrrverandi rannsóknarlögreglumannsins Jóns Óttars Ólafssonar og Helga Seljan í heild sinni, svo fólk þurfi ekki að efast um að þeir hlutar samtalsins sem birtust í myndbandi Samherja í gær séu í samhengi eða ekki. En þá vill hann að meint skýrsla Verðlagseftirlits verði einnig birt.
Að gera myndskeið um ásakanir á hendur Samherja hafi verið ein leið sem fyrirtækið hafi til að hreinsa nafn sitt og benda á það sem þeir telja vera annarleg vinnubrögð fjölmiðils sem hafi lagt sig fram í þaula að koma höggi á fyrirtækið. Hafnar hann því að um einhliða umfjöllun sé að ræða.
„Einhliða? Þetta er okkar frásögn um vinnubrögð Rúv og þeim ásökunum sem við vorum bornir á sínum tíma og voru mjög alvarlegar“
Hins vegar vildi Þorsteinn ekkert gefa upp um hvenær von væri á næsta þætti.
„Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta.“
Uppfært 20:20
Blaðamaður vísaði ranglega til myndskeiðs Samherja sem heimildarþátts. Það er ekki rétt orðanotkun og hefur verið leiðrétt. Biðst blaðamaður velvirðingar á mistökunum.