Samherji hefur birt fyrsta þátt sinn á YouTube um ásakanir sem hafa verið gerðar á hendur fyrirtækinu undanfarinn áratug. Í fyrsta þættinum er það Seðlabankamálið sem er til umfjöllunar og gerir Samherji alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning RÚV af málinu og þá einkum um heimildaöflun fréttamannsins Helga Seljans sem er sakaður um að hafa átt við gögn í Seðlabankamálinu. Telur Samherji leynilega upptöku sem var tekin upp af samtali Helga Seljans við fyrrverandi rannsóknarlögreglumanninn Jón Óttar Ólafsson árið 2012, sanna þessar ásakanir.
Ætlaði að taka Þorstein Má
Jóhannes Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri framleiðslu- og markaðsmála Síldarvinnslunnar, segir í þættinum að hann hafi hitt Helga í aðdraganda Seðlabankamálsins á þorrablóti.
„Meðal annars hitti ég Helga Selja og við vorum eitthvað að spjalla og ég var að spyrja hann út í fréttamennskuna meðal annars og þá segir hann mér í óspurðum fréttum nánast, að hann sé að vinna með mjög stórt mál núna. Og já hvað er það spyr ég af forvitni og þá segir Helgi við mig. „Já nú ætla ég að taka hann“ Og taka hvern-spyr ég. „Nú ætla ég að taka Þorstein Má og Samherja“
Jóhannes fékk svo að heyra frá Helga eðli ásakananna um að Samherji væri að selja karfa á undirverði til dótturfélaga erlendis. Sagði hann við Helga að það gæti ekki passað því það rímaði ekki við reynslu hans sjálfs af þessum málum.
Leynileg upptaka
Jón Óttar Ólafsson, afbrotafræðingur og fyrrverandi rannsóknarmaður rannsakaði málið fyrir Samherja og fékk Helga Seljan á fund undir röngum formerkjum.
„Án þess að hann vissi hafði ég allt annan tilgang með þessum fundi og ég tók hann upp“
Í þættinum er spiluð upptaka af þessum fundi þar sem Helgi Seljan segir meðal annars:
„Ég fer þarna til skattrannsóknarstjóra og þau bara einhvern veginn föttuðu þetta ekki. Bara skilja ekki um hvað þetta snýst“
Helgi sagði við Jón Óttar að hann hafði gengið á milli stofnana og reynt að fá skattrannsóknarstjóra til að hefja rannsókn á Samherja
Helgi segir á upptöku: „Þetta gerist þannig að ég er með lagagreinina og er eitthvað að pæla í henni og googla hana og sé að hún er alveg samsvarandi í gjaldeyrislögunum. Þess vegna ákvað ég sem sagt að fyrst að þau voru ekki að kveikja á þessu hjá skattrannsóknarstjóra þá hringdi ég og spurði hvort ég gæti fengið einhvern til að útskýra fyrir mér hvort skilningur minn á þessari lagagrein væri ekki örugglega réttur“
Helgi sagðist hafa skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs. Virðist sem að sú skýrsla hafi orðið ástæða þess að Seðlabankinn fór af stað með rannsókn á Semherja.
Átti Helgi við gögn?
Helgi segir hins vegar á upptökunni að hann hafi átt við gögnin. Ekki er þó ljóst hvort Helgi sé með því orðalagi að gangast við einhvers konar broti eða hvort hreinlega sé um óheppilegt orðalag að ræða. Í þætti Samherja er gengið út frá því fyrra.
Helgi segir á fundinum við Jón Óttar:
„Ég held að á þessum fundi, þá man ég hreinlega, af því að ég man að ég tók ljósrit af þessu sem ég var með, ég var bara hreinlega hræddur um að þau myndu taka þetta af mér. Þú veist, eða bara til að vera öruggur og líka því að þetta var hérna, gögnin voru þannig að ég var búinn að þurfa að eiga við sko skýrsluna“
Garðar Gíslason, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi varaskattrannsóknarstjóri segir að ef Helgi hafi átt við gögnin þá sé um alvarlegt mál að ræða og hreinlega lögbrot.
„Þá er það náttúrulega grafalvarlegur hlutur. Ef hann er að fara með slíkt skjal á fund stjórnvalds sem hefur valdheimildir og er að bera aðra sökum um að hafa framið refsiverðan verknað þá er hann sjálfur að fremja refsiverðan verknað.“
Engin skýrsla
Í þættinum segir að Helgi hafi aldrei fengið staðfest að skýrsla Verðlagsstofu hafi verið til.
„Þess vegna þurfti ég að fara í gegnum hana og tékka hana af, því ég gat ekki fengið neinn til að staðfesta fyrir mér að hún væri þarna,“ sagði Helgi á fundinum.
Í niðurlagi þáttarins segir:
„Tölurnar sem Helgi Seljan þurfti að „tékka af“ eru rangar enda tók hann heldur ekki tillit til ólíkra söluskilmála, stærðar gullkarfans eða sölutíma. Helgi Selja byggði því heilan þátt á röngum upplýsingum. Engin skýrsla er til.“
Hér má sjá þáttinn