Mikið hefur verið rætt undanfarna daga um hvaða leið íslenska samfélagið eigi að taka í COVID-19 faraldrinum. Ætti að herða aðgerðir eða slaka enn meira á þeim? Hafa stjórnvöld gengið of langt eða of skammt í aðgerðum hingað til? Og hvaða hagsmunir ættu að vega þyngst við val á aðgerðum, lýðheilsa eða efnahagur ?
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu, telur að afstaða frjálshyggjumanna í COVID-19 málum sýni fram á að þeir meti einstaklingsfrelsið ofar öllu, að þeim ætti að vera í sjálfsvald sett hvort þeir smiti aðra eða hvort þeir geri það ekki. Þetta kom fram í grein sem Stefán skrifaði inn á Kjarnann.
Stefán bendir á að samkvæmt nýfrjálshyggjunni sé allt það sem frá ríkinu komi slæmt en allt sem frá einkaframtakinu komi gott. Þess vegna fari það öfugt ofan í frjálshyggjumenn þegar ríkið hafi afskipti á borð við þau sem ríkisstjórnin hefur gripið til sökum sóttvarna.
„Slæmt að stjórnvöld ráðskist með fólk og banni því að koma saman í fjölmenni, biðji það svo að þvo sér ótt og títt og að halda tveggja metra fjarlægð – hvað þá að mælast til að fólk hafi á sér sóttvarnargrímur í margmenni. Þetta telja frjálshyggjumenn afleitar skerðingar á frelsi einstaklinga“
Það sé þó alveg rétt að afleiðingarnar af COVID-19 á efnahaginn séu alvarlegar og sársaukafullar, en hins vegar væri það töluvert verra ef veiran fengi að ganga um landið óáreitt.
„Þessir frjálshyggjumenn vilja því að fólk hafi frelsi til að smita aðra af lífshættulegri veiru!“
Stefán bendir á að engu að síður þá sé það samkvæmt vestrænni frjálslyndisstefnu ekki talið að í frelsi einstaklingsins felist frelsið til að skaða aðra. Það séu mörk á einstaklingsfrelsinu og þegar yfir þau er farið þá sé frelsið ekki lengur frelsi heldur ofbeldi og kúgun.
„Einfeldnisleg og sjálfhverf barátta frjálshyggjumanna núna gegn sóttvarnaraðgerðum er einnig í senn vitlaus og stórhættuleg – beinlínis lífshættuleg.
Við þurfum lækna til að koma viti í kollinn á þessu frjálshyggjufólki!“