„Sóttvarnarlæknir og stjórnvöld hafa sagt það frá upphafi, að á meðan ekki er til bóluefni eða lækning við veirunni, þá sé algjörlega vonlaust að við getum lifað hér áhyggjulaus í veirulausu landi. Á meðan veiran er á kreiki í heiminum, myndi hún alltaf, fyrr eða síðar, berast aftur til landsins – þrátt fyrir allar mögulegar sóttvarnaraðgerðir.“
Svo skrifar Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður samtaka ferðaþjónustunnar í pistli á Vísi í dag. Bjarnheiður bendir á að þar til bóluefni sé komið við kórónuveirunni þá sé ómögulegt að úthýsa henni úr samfélaginu. Því sé ósanngjarnt af samfélaginu að ætla að gera ferðaþjónustuna að blóraböggli fyrir nýrri bylgju COVID-19 og óraunhæft með öllu að ætla að loka og læsa landamærum landsins. Slíkt sé að fara að skaða samfélagið enn frekar.
„Það er heldur engin tilviljun að flest ríki heims starfi nú á svipuðum nótum og Íslendingar. Ef það væri raunhæft að loka lönd og ríki af um alls óákveðinn tíma (en líklega mjög langan), læsa borgarana inni eða úti og setja allt í frost til að bæla veiruna niður – án þess að það hefði teljandi áhrif á efnahag og rekstur lífsnauðsynlegra kerfa, þá myndu sennilega flest ríki fara þá leið.“
Væri landamærunum lokað hefði það að öllum líkindum alvarlegar afleiðingar á samfélagið og lífskjör þjóðarinnar. Ferðaþjónustan sé ekki einangrað fyrirbæri á Íslandi heldur hluti af stærri heild sem hefur áhrif á alla heildina.
„Það er, að ef við ákveðum að stöðva straum ferðamanna til landsins, þá verði sjálfkrafa allt í blóma á öllum öðrum vígstöðvum í samfélaginu. Staðreyndin er hins vegar sú, að ef ferðaþjónustan til landsins stöðvast af einhverjum ástæðum um langt skeið, þá myndi það á endanum hafa áhrif allt og alla í íslensku samfélagi. „
Bjarnheiður bendir á að fyrri kynslóðir hafi einnig fengið sínar hörmungar að glíma við. Náttúruhamfarir, heimsstyrjaldir, alheimskreppur og drepsóttir.
„Við fengum kórónuveiruna og með því verðum við einfaldlega að lifa um óákveðinn tíma. Ástandið nú gæti orðið hið nýja norm. Eins og ítrekað hefur komið fram hjá sóttvarnaryfirvöldum, þá er það í okkar höndum bókstaflega, að draga úr líkum á því að veiran breiðist frekar út.“
Því fyrr sem Íslendingar sætti sig við að þurfa að fylgja breyttum sóttvarnaraðgerðum og virða smitvarnir, því betra. Lífið verður nefnilega að halda áfram, þó svo það sé í breyttri mynd. Líklega sé þetta ástand að fara að vara í töluverðan tíma og höfum við ekkert val þar um. Við þurfum þess vegna að sætta okkur við nýja veröld og haga okkur eftir því.