Útgerðarfyrirtækið Samherji ætlar á morgun að birta fyrsta þátt af nýjum þáttum sem fyrirtækið hefur látið vinna um ásakanir um mútugreiðslur og arðrán fyrirtækisins í Namibíu. Fyrsta stiklan fyrir þættina hefur verið birt á YouTube-rás Samherja og má þar sjá fréttamanninum Helga Seljan bregða fyrir.
Helgi Seljan fjallaði í fréttaskýringarþættinum Kveik um ýmis meint brot sem dótturfyrirtæki Samherja hefði framið úti í Namibíu og var því haldið fram að slíkt hafi verið gert með samþykki og vitund forstjóra Samherja, Þorsteins Más Baldvinssonar.
Nú hefur Samherji ákveðið að snúa vörn í sókn og birta „sína hlið“ af Samherjamálinu. Í stiklunni er birt klippa sem er sögð úr leynilegri upptöku af Helga Seljan. Má þar heyra Helga meðal annars segja:
„Þú mátt ekki segja þeim frá þessu sem ég sagði við þig á fundinum um allt saman […] Ég verð að treysta því“
og einnig:
„Ég held að það hafi verið þannig sem ég gerði það. Af því að ég gat ekki fengið neinn til að staðfesta fyrir mér“
Greinilegt er að Samherji hefur trú á þessari væntanlegu þáttaröð því stiklunni líkur með fyrirmælunum:
„FYLGIST MEÐ Á MORGUN“