fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Hallgrímur kastar sprengju: Segir Moggann vera í eigu glæpons

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 7. ágúst 2020 09:00

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Gott að eiga fjölmiðil ef maður er glæpon!“ skrifar Hallgrímur Helgason rithöfundur í Facebook-hópinn Fjölmiðlanördar og birtir skjáskot af frétt Morgunblaðsins á fimmtudag um málefni Samherja. Um er að ræða viðtal við Björgólf Jóhannesson, forstjóra Samherja, þar sem hann fullyrðir að fyrirtækið hafi ekki stundað arðrán í Namibíu. Sem kunnugt er þá er fyrirtækið sakað um að hafa greitt mútur til að liðka til fyrir hrossamakrílkvóta í fiskveiðilögsögu Namibíu sér til handa. Í viðtalinu fullyrðir Björgólfur að mikið tap hafi verið af starfsemi Samherja í Namibíu en félagið hafi skilað milljarðatugum inn í samfélagið þar á árunum 2012 til 2018. Samsvarandi málflutning er að finna í tilkynningu á heimasíðu Samherja.

Þess skal getið að Samherji á ekki lengur hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, en Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, keypti hlutinn.

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins og höfundur umræddrar fréttar, svarar innleggi Hallgríms og gefur lítið fyrir það:

„Að maður sem kalli sig skáld skuli ekki eiga til frumlegra skens en þetta sætir furðu. En ómálefnalegt er það og lágkúra – svona eins og flest annað sem úr þessari átt kemur og hefur komið síðustu 15 árin.“

Stefán segir einnig þetta um umræddan fréttaflutning:

„Þessar upplýsingar hafa fréttagildi fyrir almenning og þess vegna eru þær í frétt í blaðinu. Þarna er ekki verið að reka neinn áróður heldur upplýsa um niðurstöðu samantektar sem fyrirtækið hefur sjálft látið gera. Ekkert er fullyrt af hálfu blaðamanns og í undirfyrirsögn sem þú hefur kannski lesið eða rennt á segir „Forstjóri Samherja segir…“

Umræður um þetta eru fjörlegar sem vænta mátti en Sighvatur Jónsson skrifar:

Stefán, þú virðist ekki sjá það sem flestir aðrir sjá. Ég skal lista niður það sem fólk sér við þetta. Mogginn er málgagn útgerðarinnar. Fyrirsögnin er stór yfirlýsing frá útgerðarmanni. Engra gagnrýninna spurninga er spurt. Enginn annar fenginn til álitsgjafar. Passað er upp á að þetta birtist í frídreifingu Moggans til að ná til sem flestra. Augljós stýring umræðunnar þar sem málið snýst ekki um arðrán eða ekki arðrán heldur mútugreiðslur. Þetta æpir á flesta sem ekki eiga beina hagsmuni undir Þorsteini Má.“

Það kemur kannski ekki á óvart að Gunnar Smári Egilsson blandar sér í umræðurnar en hann heldur því fram, eins og Sighvatur, að Morgunblaðið sé sérstaklega áróðurskennt á fimmtudögum þegar það er í frídreifingu. Hefst þar hatrömm rimma milli Gunnars Smára og Stefáns Einars:

„Það er ætíð einhver svona áróður í blaðinu þegar það er fríblað. Auðvitað líka hina dagana, en í miklu minna magni. Ritstjórnin hefur aðlagað sig að þörf hinna ríku í áróðursstríðinu, að segja svona fréttir helst á fimmtudögum. Hálfgerð skrípa-ritstjórn orðin, enda dansa limirnir eftir höfðinu. Mogginn er málgagn auðvalds sem er í stríði við þjóðina.“

Stefán Einar svarar að bragði:

„Enginn þekkir það betur en þú hvernig það er að laga sig á hagsmunum hinna ríku. Alltaf verið til leigu og ert það enn. Hvar sem þefa má uppi peninga, hvort sem þeir eru í eigu alþýðunnar eða Jóns Ásgeirs. Hversu aumkunarvert er það?“

Gunnar Smári svarar:

„Í hvert sinn sem þú opnar munninn minnir þú mig á það sem Zorba sagði; ef maðurinn lyktaði af innræti sínu væri ekki líft hér fyrir fýlu.“

Stefán svarar fyrir sig að bragði og látum við það duga úr þessum umræðum þó að rimman sé töluvert lengri:

„Það er sama tilfinning og fólkið fær sem þú hefur sviðið með því að svíkja það um laun og alla þá sem brennt hafa sig á viðskiptum við þig. Sá listi er langur og gæti fyllt margar síður í Morgunblaðinu ef tekinn yrði saman.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði