668 áttu von á greiðslu frá Fjársýslu ríkisins um mánaðamótin en aðeins 335 fengu greiðslu, samtals 137 milljónir. 313 fengu ekkert. Fréttablaðið skýrir frá þessu. Í svari frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu segir að ástæðan fyrir þessu sé að stór hluti þátttakenda hafi ekki skráð inn bankaupplýsingar.
„Unnið er að því að fá bankaupplýsingar frá fyrirtækjum og einstaklingum og hafa nú borist upplýsingar frá 181 aðila sem mun fá greitt samtals 43.302.961 krónu í upphafi næstu viku.“
Er haft eftir Guðrúnu Gísladóttur, skrifstofustjóra fjárlaga, rekstrar og innri þjónustu hjá ráðuneytinu.
Björn Baldursson, eigandi Surf & Turf á Selfossi er meðal þeirra sem fékk ekki greitt um mánaðamótin.
„Ég hef tekið við um 150 Ferðagjöfum á mínum veitingastað enda bauð ég 2.000 krónur til viðbótar hverri gjöf. Þeir sem standa að þessu halda því fram að ég hafi ekki skilað inn bankaupplýsingum en það er einfaldlega lygi. Það segir sig sjálft að þegar svona stór hluti á að hafa gleymt að skrá inn upplýsingarnar þá er eitthvað í ólagi. Þetta er að mínu mati illa unnið.“
Er haft eftir Birni sem átti von á um hálfri milljón króna um mánaðamótin.